Stafræn opinber þjónusta – stofnun veitingastaða

Skýrsla til Alþingis

25.11.2019

Ríkisendurskoðandi hefur gert úttekt á hvernig stafrænni opinberri þjónustu við stofnun veitingastaða sé háttað. Í stuttu máli er meginniðurstaða úttektarinnar sú að íslensk stjórnvöld hafa sett stafræna opinbera þjónustu ofarlega á stefnuskrá sína. Hins vegar vantar ennþá nokkuð upp á að búið sé að útfæra lausnir og samræma tækniinnviði opinberra aðila þannig að þeir nái settum markmiðum. Rétt er þó að taka fram að ýmis verkefni eru í gangi til þess að bæta stafræna opinbera þjónustu.

Tildrög úttektarinnar má rekja til fundar norrænna ríkisendurskoðenda sumarið 2016 þar sem ákveðið var að vinna samhliða úttektir á upplýsingakerfum. Ákveðið var að gera úttekt á stafrænni opinberri þjónustu og nota umsóknarferli sem fara þarf í gegnum við stofnun veitingastaða sem dæmi í úttektinni. Ástæðan fyrir því að stofnun veitingastaða varð fyrir valinu er sú að veitingastaður er háður leyfisveitingum og eftirliti margra opinberra aðila, bæði stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Í því ferli reynir því á mjög marga þætti stafrænnar opinberrar þjónustu.

Stafræn opinber þjónusta við stofnun atvinnurekstrar er einn af þeim þáttum sem Evrópusambandið mælir þegar lagt er mat á stöðu og árangur ríkja í stafrænni opinberri þjónustu (eGovernment benchmark).

Í íslensku skýrslunni er engin samanburður gerður við önnur lönd. Einungis er fjallað um stöðuna hér á landi. Samhliða íslensku úttektinni unnu ríkisendurskoðanir Færeyja, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sameiginlega að samskonar úttekt. Sænska ríkisendurskoðunin ritstýrði norrænu samanburðarskýrslunni.

Mynd með frétt