Hlutverk

Fjárhagsendurskoðun

Viðamesta verkefni Ríkisendurskoðunar felst í því að endurskoða ríkisreikning og reikninga ríkisaðila. Tæplega helmingur starfsmanna stofnunarinnar sinnir þessu verkefni.

Samkvæmt 5. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga felst fjárhagsendurskoðun hjá ríkinu í því að:

  • Meta hvort reikningsskilin gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góða reikningsskilavenju.
  • Kanna innra eftirlit stofnana og fyrirtækja og hvort það tryggir viðunandi árangur.
  • Ganga úr skugga um að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli og samninga.

Við þessi störf beitir Ríkisendurskoðun viðurkenndum verklagsreglum og hefur hliðsjón af stöðlum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI) og, eftir atvikum, stöðlum Alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC).

Auk þess að votta fjárhagslegar upplýsingar leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að kanna innra eftirlit stofnana. Þá skoðar stofnunin á hverju ári sérstaklega valda þætti fjármálastjórnar stofnana, svo sem innkaup á vörum og þjónustu, fjárvörslu, launamál o.s.frv.

Liður í fjárhagsendurskoðun hjá ríkinu er að kanna öryggi og hagkvæmni upplýsingakerfa sem ríkisaðilar nota. Við þessa vinnu er m.a. höfð hliðsjón af lögum um Ríkisendurskoðun, leiðbeiningum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana og leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila.

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar leitast við að kynna sér ítarlega starfsemi, starfsumhverfi, bókhalds- og eftirlitskerfi þeirra stofnana sem þeir endurskoða. Markmiðið með þessu er að meta hvort hætta sé á því að reikningskil gefi ekki glögga mynd af rekstri og efnahag. Slíkt áhættumat er nauðsynlegt til að tryggja að endurskoðunin beinist að því sem mestu máli skiptir fyrir áreiðanleika reikningsskilanna.

Á hverju ári eru á fjórða hundrað stofnanir, fyrirtæki og sjóðir ríkisins endurskoðuð. Val á aðilum til endurskoðunar byggist m.a. á áhættumati. Starfsmenn Ríkisendurskoðunar annast megnið af þessari vinnu en einkareknar endurskoðunarstofur annast hluta hennar samkvæmt samningum við stofnunina.

Frá og með árinu 2017 eru endurskoðunarskýrslur birtar opinberlega, nema um sé að ræða málefni sem leynt skal fara samkvæmt lögum eða opinberir hagsmunir eða einkahagssmunir standi því í vegi.

Ríkisendurskoðun gerir á hverju ári Alþingi og almenningi grein fyrir helstu niðurstöðum fjárhagsendurskoðunar í sérstakri skýrslu sem nefnist Endurskoðun ríkisreiknings.


Stjórnsýsluúttekt

Stjórnsýsluendurskoðun felur í sér mat á frammistöðu þeirra sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með, samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Sérstaklega er horft til meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hagkvæmni og skilvirkni hjá hinu opinbera og hvort framlög ríkisins skili tilætluðum árangri.

Í lýðræðisríkjum þurfa stjórnvöld að svara fyrir og axla ábyrgð á athöfnum sínum gagnvart löggjafa og almenningi. Til að þetta sé mögulegt þurfa að liggja fyrir upplýsingar um starfsemi, frammistöðu og árangur stjórnvalda á hverjum tíma. Stjórnsýsluendurskoðun aflar slíkra upplýsinga og setur fram í skýrslu. Slík endurskoðun er meðal meginverkefna ríkisendurskoðana hvarvetna í heiminum og er mikilvægur þáttur í eftirliti löggjafans með framkvæmdarvaldinu. Ríkisendurskoðun hagar stjórnsýsluendurskoðun sinni í samræmi við lög um embættið. Einnig hafa alþjóðasamtök ríkisendurskoðana (INTOSAI) mótað ítarlega staðla um stjórnsýsluendurskoðun.

Stjórnsýsluendurskoðun er í raun frammistöðumat. Í henni felst almenn greining á því hvernig ráðuneyti, stofnanir og aðrir opinberir aðilar sinna lögbundnum verkefnum. Mat á frammistöðu getur tekið til hagsýni, þ.e. til verðs og gæða þeirra aðfanga sem þarf til viðkomandi starfsemi, skilvirkni, þ.e. hvort aðföng séu nýtt með þeim hætti að mesta mögulega magn afurða fáist, eða árangurs, þ.e. hvort eða að hvaða leyti markmið starfseminnar hafa náðst (sjá einnig 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga og lögskýringargögn).

Eitt af markmiðum stjórnsýsluúttekta er að setja fram tillögur til úrbóta. Þar er iðulega horft til breytinga á skipulagi, stjórnun og starfsaðferðum þeirra sem sem tengjast viðfangsefni úttektar, hvort sem um er að ræða ráðuneyti, stofnanir eða aðra. Þegar stjórnsýsluúttekt er lokið er hún kynnt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og í kjölfarið birt opinberlega.

Samkvæmt 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda getur embættið gert stjórnsýsluúttektir hjá öllum þeim aðilum sem fjármagna starfsemi sína með ríkisfé, ríkið á að hálfu eða meira eða njóta framlaga úr ríkissjóði vegna þjónustu sem þeir veita. Nokkur hluti úttektanna er jafnan saminn að beiðni Alþingis, einstakra ráðuneyta eða ríkisstofnana. Aðrar eru unnar að frumkvæði Ríkisendurskoðunar og viðfangsefnin þá m.a. valin út frá fjárhagslegu umfangi þeirra, áhættumati, svigrúmi til úrbóta og fyrri úttektum stofnunarinnar. Nánari útlistun á verkefnavali, undirbúningi gerð úttektar og birtingu niðurstaðna má finna í verklýsingum með verkferlum.

Sérstaklega er tekið fram í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda að stjórnsýsluúttekt geti falið í sér mat á því hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Slík endurskoðun kallast umhverfisendurskoðun. Unnið er að þróun hennar á vettvangi alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana, INTOSAI, og Evrópusamtaka ríkisendurskoðana, EUROSAI.


Úttektir í vinnslu

  Heiti úttektar Áætluð verklok
1.

Fjárhagsáætlun, fjármögnun og dreifing fjármuna hjá Landspítala
Ríkisendurskoðun hefur að eigin frumkvæði ákveðið að hefja stjórnsýsluúttekt á því hvernig fjárhagsáætlanagerð og fjármögnun Landspítalans er háttað og hvort nýting og meðferð fjármuna sé í samræmi við markmið í lögum og stefnu stjórnvalda.

Einnig verður sjónum beint að innleiðingu DRG-kerfis til framleiðnitengingar á fjárframlögum til spítalans og árangri þess. Frekari afmörkun og framkvæmd úttektarinnar mun taka breytingum eftir því sem úttektinni vindur fram.

Haustið/vetur 2023
2. Ráðstöfun byggðakvóta
Um er að ræða úttekt sem byggir á beiðni sem Alþingi samþykkti í maí 2023 um ráðstöfun byggðakvóta.
Í úttektinni verður farið í saumana á framkvæmd úthlutunar byggðakvóta, þ.e.a.s. annars vegar því aflamagni sem ráðherra úthlutar til stuðnings byggðalögum og hins vegar þegar Byggðastofnun ráðstafar aflaheimildum. Þá verður kannað hvort framkvæmdin stuðli að jákvæðri byggðaþróun, hvort framkvæmdin samrýmist góðum stjórnsýsluháttum, hvort jafnræðis sé gætt við úthlutun byggðakvóta og hvort framkvæmdin samrýmist þeim markmiðum sem stefnt var að með setningu þeirra lagaákvæða sem úthlutun byggðakvóta byggist á.
Vor 2024
3.

Fjársýsla ríkisins
Ríkisendurskoðun hefur að eigin frumkvæði ákveðið að hefja úttekt á starfsemi og starfsháttum Fjársýslu ríkisins.

Með úttektinni verður lagt mat á frammistöðu og árangur Fjársýslunnar, m.t.t. þeirra verkefna sem henni eru falin samkvæmt lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál. Áhersla verður lögð á að kanna hvort skipulag og starfshættir stofnunarinnar séu skilvirkir, hagkvæmir og árangursríkir og hvort yfirumsjón hennar með bókhaldi og reikningsskilum ríkisins hafi skilað tilætluðum árangri. Jafnframt verður kannað hvort fjármála- og efnahagsráðuneyti hafi sinnt aðhaldi og eftirliti með starfsemi stofnunarinnar með viðunandi hætti og veitt henni nauðsynlegan stuðning.

Vor 2024
4.

Hraðúttekt um ópíóíðavanda á Íslandi
Ríkisendurskoðun hefur að eigin frumkvæði ákveðið að hefja hraðúttekt um ópíóíðavanda á Íslandi. Úttektin beinist að árunum 2017 til og með 2023.

Fjallað verður um stöðu vandans og þróun, stefnu og aðgerðir stjórnvalda, meðferðarúrræði og framboð og kostnað.

Hraðúttektir eru upplýsandi og staðreyndamiðaðar skýrslur sem gefa þingi, stjórnsýslu, almenningi, fjölmiðlum og fyrirtækjum greinagóðar upplýsingar um tiltekin mál eða málefni sem erindi eiga við samfélagslega umræðu.

Mars 2024
5.

Framkvæmd og eftirlit með lögum um póstþjónustu
Um er að ræða stjórnsýsluúttekt sem byggir á beiðni sem Alþingi samþykkti í nóvember 2023 um úttekt á fram­kvæmd og eft­ir­liti með lög­um um póstþjón­ustu nr. 98/2016.

Í úttektinni verður lagt mat á árangur með framkvæmd ofangreindra laga um með hliðsjón af markmiðum þeirra um aukna samkeppni. Þar verður m.a. könnuð frammistaða opinberra eftirlitsaðila með hliðsjón af greiðslu alþjónustuframlags vegna vegna póstdreifingar á óvirkum markaðssvæðum, ákvörðun gjaldskrár vegna pakkasendinga, skiptingu póstnúmera í virk og óvirk markaðssvæði og aðferðafræði við útreikning á alþjónustuframlagi. Þá verður rekstrarafkoma Íslandspósts ohf. af framangreindri þjónustu metin með hliðsjón af markmiðum um hallalausan rekstur af þeim hluta starfsemi félagsins og undirbúning þess fyrir gildistöku nýrra laga um póstþjónustu árið 2019.  

Sumar 2024
6.

Ofanflóðasjóður - Hraðúttekt
Ríkisendurskoðun hefur að eigin frumkvæði ákveðið að ráðast í hraðúttekt á stöðu og verkefnum Ofanflóðasjóðs þar sem horft er til tekna af ofanflóðagjaldi og ráðstöfun þeirra í samræmi við gildandi lög og stefnumörkun í málaflokknum.

Vor 2024

Tekjueftirlit

Eftirlit með tekjum ríkisins, samkvæmt 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, felur í sér að fylgjast með þeim leiðum sem ríkið hefur til að afla tekna og innheimta gjöld og kanna hvort forsendur þeirra séu réttar, einnig að hafa eftirlit með hvort forsendur afskrifta hins opinbera séu réttar.

Eitt af meginhlutverkum ríkisendurskoðanda er að hafa eftirlit með tekjum ríkisins. Fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun snýr að mestu að eftirliti með því hvernig ríkisfé er nýtt en einnig þarf að huga að hvort skattar og gjöld skili sér til þeirra ríkisaðila eða opinbera hlutafélaga sem við á.

Eftirlit með tekjum ríkisins felst í að yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta, endurskoða og kanna forsendur rekstrartekna stofnana, hafa eftirlit með því að rekstrartekjur séu innheimtar í samræmi við lög og fylgjast með innheimtu opinberra gjalda og skatta. Eftirlit með tekjuöflunarleiðum hins opinbera mun beinast að álagningakerfum og að þau virki í samræmi við lög, eins og til er ætlast. Ríkisendurskoðandi mun ekki taka einstaka skattákvarðanir til endurmats.

Þá koma einnig upp þær aðstæður að opinberir aðila og opinber hlutafélög þurfa að afskrifa kröfur og fá því ekki samsvarandi tekjur. Því er fylgst með forsendum afskrifta skattkrafna, álagningar opinberra gjalda og annarra skatta og metið hvort þær séu ekki réttmætar.


Framkvæmd fjárlaga

Auk reglubundinnar fjárhagsendurskoðunar sinnir Ríkisendurskoðun sérstöku eftirliti með framkvæmd fjárlaga í samræmi við lög um stofnunina.

Verkefnið felst í því að kanna hvort stofnanir fara að ákvæðum fjárlaga, fjárreiðulaga og reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Stofnunin sendir Alþingi árlega skýrslur um niðurstöður þessa eftirlits og birtir þær jafnframt opinberlega hér á síðunni.


Fjárreiður staðfestra sjóða

Ríkisendurskoðun hefur afmarkað eftirlit með fjárreiðum sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 19/1988. Um er að ræða sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur, einkum ýmsa styrktar- og minningarsjóði og góðgerðarstofnanir.

Samkvæmt lögunum ber þeim aðilum sem undir þau falla að skila Ríkisendurskoðun ársreikningi eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár. Ríkisendurskoðun heldur skrá yfir heildartekjur og gjöld, eignir og skuldir þessara aðila, ásamt athugasemdum við framlagða reikninga. Hafi reikningur ekki borist í eitt ár eða hann reynst ófullkominn að einhverju leyti getur sýslumaður, sbr. reglugerð nr. 1125/2006, að fengnum tillögum Ríkisendurskoðunar, vísað máli viðkomandi sjóðs eða stofnunar til lögreglu til rannsóknar.

Gögnum í tengslum við fjárreiður sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá má skila undirrituðum í afgreiðslur Ríkisendurskoðunar í Bríetartúni 7, Reykjavík og Glerárgötu 34, Akureyri eða með tölvupósti á postur@rikisendurskodun.is

Sjá leiðbeiningar og eyðublöð


Fjármál tengd stjórnmálastarfsemi

Ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka og frambjóðenda samkvæmt lögum nr. 162/2006. Ríkisendurskoðandi leitast við að upplýsa forsvarsmenn stjórnmálasamtaka og frambjóðendur um skyldur þeirra samkvæmt lögunum, m.a. með útgáfu leiðbeininga og eyðublaða

Nánar um upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka
Stjórnmálasamtök skulu eigi síðar en 31. október ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár. Ríkisendurskoðandi skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta ársreikning stjórnmálasamtaka. Reikningur stjórnmálasamtaka skal vera endurskoðaður og áritaður af endurskoðanda.

Stjórnmálasamtökum er óheimilt að taka við hærra framlagi frá lögaðila eða einstaklingi en sem nemur 550 þúsund krónum. Þó má stofnframlag til stjórnmálasamtaka vera allt að 1.100 þúsund krónur. Í reikningi stjórnmálasamtaka skal tilgreina nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög sem og nöfn þeirra einstaklinga sem veitt hafa framlög yfir 300 þúsund krónum.

Ársreikningi stjórnmálasamtaka má skila rafrænt undirrituðum í gegnum þjónustusíðu Ríkisendurskoðunar á ísland.is, sjá nánar skil á ársreikningi stjórnmálasamtaka


Nánar um upplýsingaskyldu vegna persónukjörs
Frambjóðendur í persónukjöri í forsetakosningum, kosningum til Alþingis og kosningum til sveitarstjórna og þátttakendur í prófkjörum stjórnmálasamtaka ber að skila ríkisendurskoðanda uppgjöri um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu eigi síðar en þremur mánuðum frá því að kosning fór fram. Uppgjör frambjóðanda skal vera áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróðum skoðunarmanni. Frambjóðendur sem hafa minni heildartekjur eða heildarkostnað við kosningabaráttu en sem nemur 550 þúsund krónum þurfa ekki að skila ríkisendurskoðanda uppgjöri heldur nægir þeim að skila yfirlýsingu um að kostnaður hafi verið undir fyrrnefndu marki.

Frambjóðendum í persónukjöri er óheimilt að taka við hærra framlagi frá lögaðila eða einstaklingi en sem nemur 400 þúsund krónum. Í uppgjöri frambjóðanda skal tilgreina nöfn allra lögaðila sem veitt hafa framlög sem og nöfn þeirra einstaklinga sem veitt hafa framlög yfir 300 þúsund krónum.

Uppgjöri vegna persónukjörs má skila rafrænt undirrituðum í gegnum þjónustusíðu Ríkisendurskoðunar á ísland.is, sjá nánar skil á uppgjöri einstaklings í persónukjöri

Ársreikningar kirkjugarða

Ríkisendurskoðun hefur haft eftirlit með ársreikningum kirkjugarða frá og með árinu 1993, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og er kirkjugarðsstjórnum skylt að senda Ríkisendurskoðun ársreikninga kirkjugarða fyrir næstliðið ár fyrir 1. júní ár hvert. Samkvæmt sama ákvæði getur Ríkisendurskoðun kallað eftir upplýsingum og gögnum að baki reikningunum til nánari athugunar í samræmi við heimildir í lögum nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.

Ríkisendurskoðun heldur miðlæga skrá yfir alla kirkjugarða sem skila eiga ársreikningum og skráir rekstrar- og efnahagsupplýsingar úr þeim. Árlega birtir Ríkisendurskoðun yfirlit úr ársreikningum kirkjugarða vegna næstliðins árs.

Ársreikningi fyrir kirkjugarð má skila rafrænt undirrituðum í gegnum þjónustusíðu Ríkisendurskoðunar á ísland.is, sjá nánar skil á ársreikningi fyrir kirkjugarð

Vernd uppljóstrara

Leiðbeiningar til þeirra sem vilja greina frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra sbr. 21. gr. a laga nr. 46/2016.

  1. Lög um vernd uppljóstrara
    Þann 12. maí 2020 samþykkti Alþingi lög nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara. Með lögunum var nýju ákvæði bætt við lög um ríkisendurskoðanda og lög um endurskoðun ríkisreikninga. Lögin gilda frá og með 1. janúar 2021.

    Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig verði dregið úr slíkri háttsemi.

    Lögin kveða á um að miðlun upplýsinga eða gagna að uppfylltum tilteknum skilyrðum teljist ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu viðkomandi. Þannig verði ekki lögð refsi- eða skaðabótaábyrgð á þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum og þá leiði upplýsingagjöfin ekki til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti. Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðað hefur upplýsingum eða gögnum.
     
  2. Hverjir geta upplýst til Ríkisendurskoðunar?
    Allir sem hafa upplýsingar eða gögn um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi þeirra sem falla undir starfssvið ríkisendurskoðanda hafa heimild til að greina ríkisendurskoðanda frá slíku og afhenda gögn þar að lútandi.

    Starfssvið ríkisendurskoðanda tekur til eftirlits og endurskoðunar með ríkisaðilum svo sem stofnunum, sjóðum sem rekin eru á ábyrgð ríkisins og ríkisfyrirtækja þar með talið hlutafélaga, einkahlutafélaga og sameignarfélaga þar sem ríkið á helmingshlut eða meira.
     
  3. Hvaða skilyrði eru fyrir vernd?
    Upplýsingar og gögn verða vera afhentar í góðri trú. Með því er átt við að sá sem afhendir upplýsingar eða gögn hafi haft góða ástæðu til að telja upplýsingarnar sannar og að það sé í þágu almennings að miðla þeim og að ekki sé annar kostur til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Vernd laganna nær ekki til þeirra sem miðla vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum eða upplýsingum um smávægileg frávik í þeim tilgangi að koma höggi á vinnuveitendur sína eða aðra.

    Þá þurfa upplýsingar eða gögn að snerta brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi. Með ámælisverðri háttsemi er átt við að um sé að ræða hátterni sem stefnir almannahagsmunum í hættu, t.d. heilsu eða öryggi fólks eða umhverfi án þess að um sé að ræða augljós brot á lögum eða reglum. 
     
  4. Hvernig fer upplýsingagjöf fram?
    Þeir sem telja sig hafa upplýsingar og gögn um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi geta haft samband við Ríkisendurskoðun símleiðis í síma 448-8800, með því að senda ábendingu hér á vefsíðunni, með tölvupósti á netfangið uppljostrun[hjá]rikisendurskodun.is eða með því að senda bréf til embættisins á heimilisfangið Bríetartún 7, 105 Reykjavík, sem merkt er „Uppljóstrun“. Taka þarf fram hvort óskað sé eftir vernd samkvæmt ákvæðinu.

    Ríkisendurskoðun ber að gæta trúnaðar um þær persónuupplýsingar sem berast eða sem aflað er nema sá sem veitir upplýsingarnar heimili afdráttarlaust að leynd sé aflétt.
     
  5. Innihald upplýsinga
    Upplýsingar þurfa að innihalda að lágmarki:
  • Heiti eftirlitsskylds aðila, starfsmanna og/eða annarra aðila sem hlut eiga að máli.
  • Lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem eiga við.
  • Lýsingu á málavöxtum.
  1. Hvað gerir Ríkisendurskoðun við upplýsingar og gögn sem berast?
    Ríkisendurskoðun ber að gæta trúnaðar um þær persónuupplýsingar sem berast eða sem aflað er nema sá sem veitir upplýsingarnar heimili afdráttarlaust að leynd sé aflétt. Þannig er ekki greint frá því hver hafi upplýst Ríkisendurskoðun um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi.

    Gögn og upplýsingar eru skoðaðar og metið hvort tilefni sé til aðgerða af hálfu Ríkisendurskoðunar. Aðgerðir af hálfu embættisins felast í úttektum og skoðunum á viðkomandi stofnun eða máli. Ef Ríkisendurskoðun metur sem svo að hagfelldara og árangursríkara sé að framsenda upplýsingar og/eða gögn til annars stjórnvalds til meðferðar er það gert. Upplýsingar um uppljóstrara eru þó aldrei framsendar. 

    Ríkisendurskoðun skal upplýsa viðkomandi um hvort upplýsingarnar sem hafa verið afhentar hafi orðið tilefni til athafna þannig að vernd verði virk.

    Persónuupplýsingum og öðrum gögnum verður eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf við meðferð máls.