Stefnur

Mannauðsstefna

Ríkisendurskoðun er annað af tveimur embættum á vegum Alþingis. Eitt meginmarkmiða Ríkisendurskoðunar er að upplýsa Alþingi um hvernig meðferð opinbers fjár er háttað í rekstri hins opinbera og liðsinna nefndum Alþingis. 

Við teljum að mannauður Ríkisendurskoðunar skipti miklu og að embættið sé vinnustaður þar sem starfsfólk þess með viðeigandi þekkingu og reynslu, vinni að krefjandi og mikilvægum verkefnum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Við teljum því að öflug mannauðsstefna með áherslu á velferð starfsfólksins sé lykillinn að ánægðu og áhugasömu starfsfólki sem saman stuðlar að því að embættið uppfylli lögboðnar skyldur. Virðing og gagnkvæmt traust meðal starfsfólks er hornsteinn í mannauðsstefnu okkar þar sem við leitumst við að vinna saman í sátt við úrlausn verkefna. Þannig munum við saman stuðla að einni liðsheild og gera Ríkisendurskoðun að góðum vinnustað. 

Starfsánægja
Við teljum að einn mikilvægasti þáttur þess að ná árangri í störfum okkar sé að starfsánægja sé mikil, okkur líði öllum vel í vinnunni og starfsandinn sé góður á meðal starfsfólks. Við erum sammála um að sýna hvert öðru ávallt vinsemd, virðingu, umburðarlyndi og traust. Við viljum jafnframt að samskipti innan vinnustaðarins séu jákvæð, greið og góð. 

Jafnrétti, samskipti og virðing 
Við leggjum áherslu á jafnrétti kynjanna og mismunum engum á grundvelli kyns eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Við líðum ekki einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni eða kynbundið ofbeldi. 

Starfskjör skipta okkur miklu og við viljum búa við samkeppnishæft starfskjaraumhverfi í launum, aðbúnaði, starfsþróun o.fl. Við höfum jafnréttisáætlun til þriggja ára í senn aðgengilega fyrir starfsfólk og vinnum að innleiðingu jafnlaunavottunar. 

Við vinnum störf okkar af fagmennsku, kostgæfni, óhæði og heilindum. Við komum fram við samstarfsfólk af háttvísi og vinsemd og liðsinnum samstarfsfélögum með jákvæðni og samvinnu að leiðarljósi. Við tölum aldrei illa um samstarfsfólk eða viðskiptavini og viðhöfum ekki ótilhlýðilega háttsemi af neinu tagi.

Samræming vinnu og einkalífs
Við viljum auðvelda starfsfólki að samræma vinnu og einkalíf og sporna gegn óhóflegu vinnuálagi. Liður í því er sveigjanlegur vinnutími og stytting vinnuvikunnar í 36 stundir á viku. Við sýnum mismunandi fjölskylduaðstæðum skilning og teljum mikilvægt að komið sé til móts við þarfir starfsfólks, s.s. vegna skólastarfs barna eða veikinda í nærumhverfi starfsfólks, þ.á m. vegna umönnunar foreldra og annarra nákominna aðstandenda. Við viljum gera samstarfsfólki kleift að sinna verkefnum sínum í heimavinnu þegar aðstæður kalla á það og leggjum okkar að mörkum til að útvega heimatengingu og tæknilega liðsinni. 

Stjórnun og upplýsingamiðlun
Við viljum viðhafa góða og nútímalega stjórnunarhætti þar sem stjórnendur hafa jákvætt viðhorf til samstarfsfólks og hafa reglulegt samráð um málefni vinnustaðarins. Við viljum að stjórnendur fái sérstaka þjálfun í stjórnun og liðsheildarmótun og árlega fari fram frammistöðumat á stjórnunarhæfni þeirra.  Með þessu viljum við skapa umhverfi þar sem stjórnendur fá tækifæri til að bæta sig og vaxa í stjórnendahlutverkinu.

Við leggjum áherslu á að fundir stjórnenda um málefni vinnustaðarins og verkefni embættisins séu haldnir reglulega og fundargerðir þeirra funda séu öllu starfsfólki aðgengilegar. Hið sama á við um fundargerðir sviðsfunda. 

Starfsmannafundi höldum við eigi sjaldnar en tvisvar á ári þar sem við tökum þátt í umræðum og vinnuhópum um málefni sem snerta vinnustaðinn og mótum sameiginlega úrlausn ýmissa álitamála. 

Störf og starfsþróun
Við erum sammála um að öll störf hjá Ríkisendurskoðun séu jafn mikilvæg. Við leggjum áherslu á að starfsfólk hafi ávallt fullnægjandi aðbúnað til að sinna störfum sínum og innleiðum tæknilausnir sem gera störf okkar skilvirkari.

Við viljum skapa tækifæri fyrir starfsfólk til að styrkja sig og auka við þekkingu og reynslu. Það gerum við m.a. með því að færa okkur á milli starfa hjá Ríkisendurskoðun, takast á við ný verkefni, sækja námskeið og fyrirlestra. Við leggjum áherslu á teymisvinnu og samstarf starfsfólks þvert á svið og tryggjum þannig yfirfærslu þekkingar innan starfsmannahópsins. Þannig tökum við framförum jafnt og þétt um leið og við leggjum okkur fram um að vinna að úrlausn verkefna okkar. 

Við viljum að reglubundin starfsmannasamtöl séu vettvangur samræðu milli samstarfsfólks, stjórnenda og sérfræðinga. Tilgangur samtalanna er að stuðla að velferð starfsfólks, starfsárangri og gagnkvæmri upplýsingamiðlun. Við undirbúum okkur vel fyrir starfsmannasamtölin og fylgjum þeim eftir, ef niðurstaða samtalanna er á þann veg en gætum jafnframt trúnaðar um viðkvæm persónuleg málefni. Við framkvæmum starfsgreiningar árlega og byggjum starfslýsingar á þeim.

Ráðningar og móttaka nýliða
Við leggjum áherslu á að ráðningar byggist á faglegu ráðningarferli í samræmi við lög og reglur þar um. Við gætum ávallt að jafnræði og hlutleysi í ráðningum þar sem val miðist við reynslu, menntun og hæfni einstaklingsins til að takast á við viðkomandi starf. Þannig tryggjum við hæft og metnaðarfullt starfsfólk sem getur tekist á við margþætt verkefni í síbreytilegu umhverfi. 

Við bjóðum nýtt starfsfólk velkomið til starfa og sameinumst um að fræða nýliða um störfin og starfshætti. Við sjáum til þess að nýtt starfsfólk fái sér reyndari samstarfsmann í ákveðinn tíma sem hafi það hlutverk að leiðbeina viðkomandi um fyrstu skrefin. 

Öryggiskröfur og þagnarskylda
Við erum bundin þagnarskyldu um störf okkar og um hvaðeina sem við verðum áskynja í verkefnum okkar. Í því felst að við miðlum ekki upplýsingum um það sem við fáum vitneskju um í störfum okkar sem leynt skal fara og að þagnarskyldan helst áfram þótt við látum af störfum.


Jafnlaunastefna

Stefna Ríkisendurskoðunar er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. 

Ríkisendurskoðandi ber ábyrgð á jafnlaunastefnu og að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt. Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af jafnlaunakerfinu og tekur til allra starfsmanna Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðandi felur mannauðsstjóra ábyrgð á rekstri og viðhaldi jafnlaunakerfisins. 

Til að framfylgja markmiðum jafnlaunastefnunnar mun Ríkisendurskoðun:

 • Innleiða og viðhalda vottuðu jafnlaunakerfi sem byggt er á jafnlaunastaðli ÍST 85:2012.
 • Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
 • Hafa eftirlit með og bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum. 
 • Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
 • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítni við lög.
 • Kynna jafnlaunastefnuna fyrir starfsfólki og birta hana almenningi á ytri vef Ríkisendurskoðunar.


Reykjavík, 1. febrúar 2022

Guðmundur Björgvin Helgason
starfandi ríkisendurskoðandi
 


Loftslagsstefna

Ríkisendurskoðun stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Embættið vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

Embættið mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig leitast við að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun eftir viðurkenndum leiðum. 

Stefna þessi tekur mið af alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda og stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum. 

Stefnan nær til samgangna á vegum Ríkisendurskoðunar, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu. Stefnan nær til allrar starfsemi embættisins og starfsstöðva í Reykjavík og á Akureyri. 

Áherslur Ríkisendurskoðunar í loftslagsmálum eru: 

 • Dregið verður úr losun GHL vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar 
 • Fjarfundamenning verður efld og tæknilausnir nýttar 
 • Dregið verður úr úrgangsmyndun og endurvinnsla aukin 
 • Hugað verður að orkusparnaði og -skiptum eftir því sem við kann að eiga 
 • Fræðsla verður veitt um innra umhverfisstarf og umhverfismál 
 • Hugað verður að umhverfisvænum innkaupum 
 • Unnið verður að innleiðingu á Grænum skrefum 
 • Stefnt verður að kolefnisjöfnun losunar eftir viðurkenndum leiðum 

Loftslagsstefna Ríkisendurskoðunar er rýnd á hverju ári af framkvæmdastjórn embættisins og markmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af ríkisendurskoðanda og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu embættisins.