Ríkisútvarpið ohf. – rekstur og aðgreining rekstrarþátta

Skýrsla til Alþingis

20.11.2019

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Ríkisútvarpinu ohf. en úttektin var unnin eftir fyrirspurn mennta- og menningarmálaráðuneytis um fjárhagslega aðgreiningu almannaþjónustu og samkeppnisreksturs í bókhaldi félagsins.

Í skýrslunni bendir ríkisendurskoðandi m.a. á að Ríkisútvarpinu ber að uppfylla lagalegar skyldur um stofnun dótturfélags fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu. Standi vilji stjórnvalda ekki til þess þurfi þau að beita sér fyrir lagabreytingu.

Til að auka gagnsæi um aðskilnað fjölmiðla í almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar og tryggja fjárhagslegan aðskilnað þarf RÚV ohf. að verðmeta auglýsingarými milli dagskrárliða og tekju- og gjaldfæra með viðeigandi hætti.

Ríkisendurskoðandi bendir jafnframt á að efla þurfi fjárhagslegt eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins og leggur til að fjármála- og efnahagsráðuneyti fari með hlut ríkisins í félaginu í stað mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þá telur ríkisendurskoðandi rétt að tryggt verði með betri hætti en nú er gert að a.m.k. hluti stjórnarmanna í RÚV hafi sérþekkingu á fjármálum.

Rekstrarafkoma RÚV ohf. á tímabilinu 2013–18 var jákvæð um 1,5 ma.kr. Sú afkoma skýrist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili verið neikvæð um 61 m.kr. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.

Fjárhagsleg endurskipulagning hófst hjá RÚV ohf. árið 2014 og hefur hún skilað RÚV hallalausum rekstri frá árinu 2015. Ríkisendurskoðandi bendir þó á að greiðslugeta félagsins er enn veik og fjárhagsleg staða félagsins viðkvæm.

Sjá nánar

Mynd með frétt