Stafræn opinber þjónusta þegar stofnað er til atvinnurekstrar á Norðurlöndum

Skýrsla til Alþingis

15.11.2019

Metnaðarfullar áætlanir eru til staðar í Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð um að efla stafræna opinbera þjónustu og einfalda stofnun atvinnurekstrar. Í sameiginlegri skýrslu ríkisendurskoðenda þessara landa kemur í ljós að enn er töluvert óunnið í þessum efnum til þess að settum markmiðum sé náð.

Ríkisstjórnir Norðurlanda stefna allar að því að einfalda ferla sem stofnendur atvinnurekstrar þurfa að ganga í gegnum. Tilgangur þeirra er að styrkja samkeppnishæfni og skapa aðstæður til að laða að fleiri fyrirtæki. Stafræn þjónusta og málsmeðferð eru mikilvæg verkfæri opinberra aðila sem bera ábyrgð á ferlinu.

Ríkisendurskoðanir í Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hafa unnið samhliða að úttekt á stafrænni opinberri þjónustu við þá sem stofna til atvinnurekstrar. Ákveðið var að skoða stofnun veitingastaða í úttektinni þar sem það er dæmi um tegund atvinnurekstrar sem býr við ítarlegt regluverk og er háð leyfum og eftirliti margra opinberra aðila bæði ríkisaðila og stofnana sveitarfélaganna.

Í dag er sameiginleg skýrsla þessa verkefnis birt. Í skýrslunni kemur m.a. fram að flest ríkin eru að standa sig vel í stafrænni opinberri þjónustu í samanburði við önnur lönd í Evrópu, en jafnframt kemur fram að enn töluvert er óunnið í því efni að auka stafræna opinbera þjónustu og einfalda það ferli sem fara þarf í gegnum þegar stofnað er til atvinnurekstrar.

Í skýrslunni kemur fram að það geti verið erfitt fyrir þann sem vill hefja atvinnurekstur að fá yfirsýn yfir það sem krafist er af honum. Stafræn opinber þjónusta er oft ekki nægilega notendavæn og innri kerfi opinberra aðila sem notuð eru við afgreiðslu mála eru ekki nægilega tölvuvædd.

Þá er það breytilegt milli landa hvar þörfin á endurbótum á þjónustunni er mest. Það getur verið allt frá því að innleiða þurfi stafræna opinbera þjónustu í umsóknarferlinu út í að innleiða flóknar gagnvirkar lausnir þar sem hluti upplýsinga komi með sjálfvirkum hætti í umsóknina.

  • „Við sjáum að þrátt fyrir metnaðarfullar áætlanir, þá er mikið verk enn óunnið til þess að gera umsóknarferilinn eins hagkvæman og auðveldan og mögulegt er, bæði fyrir þann sem stofnar til atvinnurekstrar og þá opinberu starfsmenn sem þurfa að afgreiða og hafa eftirlit með starfseminni. Þetta á bæði um ríki og sveitarfélög.“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi.

Annað vandamál sem veldur erfiðleikum er flæði upplýsinga á milli opinberra aðila, og þróun og stjórnun á stafrænni opinberri þjónustu sem margir opinberir aðilar koma að.

Hægt er að sækja norrænu skýrsluna hér (hún er á ensku)

Skýrslur eftirfarandi landi hafa þegar verið birtar:

  • Finnland
  • Ísland – Íslenska skýrslan er núna í drögum hjá umsagnaraðilum og verður birt fljótlega
  • Noregur
  • Svíþjóð
Mynd með frétt