Úttekt á Vatnajökulsþjóðgarði

Skýrsla til Alþingis

30.10.2019

Ríkisendurskoðun hefur lokið úttekt á Vatnajökulsþjóðgarði sem unnin varð að beiðni stjórnenda þjóðgarðsins.

Uppsafnað tap Vatnajökulsþjóðgarðs á árunum 2014-2018 var um 218 m.kr. og eigið fé þjóðgarðsins neikvætt um 186,5 m.kr. í lok árs 2018. Viðsnúningur varð þó í rekstrinum árið 2018 og var afkoma ársins jákvæð um 19 m.kr.

Verulegar brotalamir höfðu verið á stjórnun og eftirliti með daglegum rekstri auk þess sem samskiptaleysi og trúnaðarbrestur milli þáverandi stjórnar og yfirstjórnar þjóðgarðsins höfðu haft alvarleg áhrif. Þá hafði marglaga og valddreift stjórnfyrirkomulag orðið til þess að miðlæg stjórnsýsla var veik og ábyrgð hvers og eins óskýr.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja að miðlæg stjórnsýsla Vatnajökulsþjóðgarðs sé öflug og hafi eftirlit með fjárreiðum og bókhaldi þjóðgarðsins. Styrkja þarf skipulag og stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs og festa í sessi nauðsynleg stjórntæki, s.s. stjórnunar- og verndaráætlun, atvinnustefnu og setja þarf nauðsynlegar reglugerðir. Þá þarf að koma á samþykktu skipuriti, starfslýsingum og skýrum verklagsreglum.

Komið hefur verið til móts við margar þessara tillagna. Miðlæg stjórnsýsla hefur verið efld og aukið eftirlit er með rekstri. Áframhaldandi umbótastarf er engu að síður nauðsynlegt.

Sjá nánar

Mynd með frétt