Breyting á lögum um ríkisendurskoðanda

Almennt

09.07.2019

Tekið hafa gildi lög nr. 69/2019 um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016 (eftirlit með tekjum ríkisins o.fl.). Meðal helstu breytinga eru ný áhersla á eftirlit með tekjum ríkisins, aukið aðgengi að gögnum og upplýsingum og samræming við stöðu umboðsmanns Alþingis og Alþingis hvað varðar skjalavistun með breytingu á lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

Nýr stafliður hefur bæst við 4. gr. um starfssvið ríkisendurskoðanda, um að það nái til eftirlits með tekjum ríkisins. Starfssviðið er nánar skilgreint í nýrri grein, 6. gr. a Eftirlit með tekjum ríkisins. Með þeirri breytingu er lögð frekari áhersla á það mikilvæga hlutverk ríkisendurskoðanda að hafa eftirlit með tekjum ríkisins. Ríkisendurskoðandi hefur lagt áherslu á þetta hlutverk og í því skyni komið á fót sviði tekjueftirlits. Hlutverk sviðsins er meðal annars að fylgjast með tekjum ríkisins, kanna forsendur afskrifta skattkrafna, yfirfara forsendur álagningar opinberra gjalda og annarra skatta og fylgjast með innheimtu.

Með breytingu á 11. gr. um aðgang að gögnum og upplýsingum er nú kveðið fortakslaust á um að ríkisendurskoðandi hafi aðgang að rafrænum gögnum og ýmsum opinberum skrám, án gjaldtöku. Ríkisendurskoðandi mun halda skrá yfir þau skattframtöl einstaklinga og lögaðila sem skoðuð verða og mun tilkynna viðkomandi aðilum um slíka skoðun. Einnig hefur ríkisendurskoðandi nú skýra heimild til að skoða bókhald þriðja aðila vegna endurskoðunar á endurgreiðslum úr ríkissjóði til einkaaðila.

Mynd með frétt