Birting ársreikninga staðfestra sjóða og stofnana 2017

Staðfestir sjóðir og stofnanir

26.02.2019

Í ársbyrjun 2019 höfðu 410 af 717 skilaskyldum sjálfseignastofnunum og sjóðum sem lög nr. 19/1988 ná til, skilað Ríkisendurskoðun ársreikningi fyrir rekstrarárið 2017 en honum ber að skila í síðasta lagi 30. júní vegna næstliðins árs. Af þeim 307 sjóðum sem ekki skiluðu Ríkisendurskoðun ársreikningi fyrir rekstrarárið 2017 eru 54 sjóðir sem aldrei hafa skilað ársreikningi.

Þrátt fyrir árvissar ítrekanir Ríkisendurskoðunar við forsvarsmenn staðfestra sjóða og sjálfseignarstofnana hafa skil lítið batnað á undanförnum árum. Í lögum nr. 19/1988 er ekki mælt fyrir um refsikennd viðurlög, svo sem sektir, vegna síðbúinna skila eða annarrar vanrækslu líkt og raunin er t.d. varðandi sjálfseignarstofnanir er stunda atvinnu. Af þessum sökum hefur Ríkisendurskoðun farið þess á leit við dómsmálaráðuneyti að það beiti sér fyrir því að lögfest verði efnislega sambærilegt sektarákvæði og mælt er fyrir um í 42. gr. laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir, sem stunda atvinnu.

Í lok árs 2018 voru 703 sjálfseignastofnanir og sjóðir á sjóðaskrá. Alls voru 11 nýjar skipulagsskrár staðfestar á árinu og tilkynnti Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra í upphafi árs 2019 niðurlagningu 13 sjóða og stofnana á árinu 2018. Athygli er vakin á því að staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum ber að skila ársreikningi fyrir það ár sem þau eru lögð niður.

Sjá nánar