Eftirlit Fiskistofu – stjórnsýsluúttekt

Almennt

17.01.2019

Ríkisendurskoðandi telur að styrkja þurfi eftirlit Fiskistofu til að styðja við markmið um sjálfbæra og ábyrga nýtingu nytjastofna sjávar, sbr. lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og lög 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt sem unnin var að beiðni Alþingis.

Á grundvelli þeirra gagna sem Ríkisendurskoðun aflaði við gerð úttektarinnar er ljóst að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri. Ríkisendurskoðandi leggur til að gerðar verði skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar og eftirlit hafnaryfirvalda. Kanna þarf hvort færa eigi vigtun á hafnarvog undir forræði Fiskistofu og fjölga yfirstöðum eftirlitsmanna hjá vigtunarleyfishöfum.

Eftirlit með brottkasti er veikburða og ómarkvisst. Hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið né árangursmælingar. Ríkisendurskoðandi mælist til að kannað verði hvort auka megi samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslu við eftirlit með brottkasti. Þá þurfi að auka viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum og horfa til tækninýjunga við eftirlit.

Ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ráðast þarf í endurskoðun á 13. og 14. gr. laganna hvað snýr að ákvæðum um bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.

Ríkisendurskoðandi vekur athygli á mikilvægi þess að Fiskistofa hafi nauðsynleg úrræði og aðföng til að sinna eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti með tilætluðum fælingar- og varnaðaráhrifum. Skilgreina þarf skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að þeim verði náð.

Sjá nánar

Mynd með frétt