Breytt lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Stjórnmálastarfsemi

09.01.2019

Við gildistöku laga nr. 139/2018 um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra nr. 162/2006 breyttust þær fjárhæðir sem einstaklingar í persónukjöri og stjórnmálasamtök mega taka á móti. Nýju lögin tóku gildi 1. janúar 2019.

Hámarksframlög til stjórnmálasamtaka eru nú 550 þús. kr. frá lögráða einstaklingum eða lögaðilum. Sé um stofnframlag að ræða má hámarksframlag nú vera allt að 1.100 þús. kr. Þá mega stjórnmálafélög innan samstæðu stjórnmálasamtaka taka á móti framlögum einstakra lögaðila umfram hámarksframlag, samtals innan samstæðu að hámarki 100 þús. kr. Stjórnmálafélögum innan samstæðu stjórnmálasamtaka er einnig heimilt að taka á móti framlögum einstaklinga umfram hámarksframlag, samtals innan samstæðu að hámarki 100 þús. kr.

Hámarksframlög til einstaklinga í persónukjöri eru óbreytt, alls 400 þús. kr. frá lögráða einstaklingum eða lögaðilum.

Með lögum nr. 139/2018 voru einnig gerðar breytingar á hámarksfjárhæðum kostnaðar við persónukjör. Heildarkostnaður einstaklinga í persónukjöri vegna kosninga til Alþingis, til sveitarstjórna eða vegna forsetakosninga má nú vera 2 m.kr. að viðbættu álagi sem hér segir:

Á kjörsvæði með fleiri en 50.000 íbúa, 18 ára og eldri, 140 kr. fyrir hvern íbúa.
Á kjörsvæði með 40.000–49.999 íbúa, 18 ára og eldri, 185 kr. fyrir hvern íbúa.
Á kjörsvæði með 20.000–39.999 íbúa, 18 ára og eldri, 230 kr. fyrir hvern íbúa.
Á kjörsvæði með 10.000–19.999 íbúa, 18 ára og eldri, 275 kr. fyrir hvern íbúa.
Á kjörsvæði með færri en 10.000 íbúa, 18 ára og eldri, 320 kr. fyrir hvern íbúa.

Jafnframt voru gerðar breytingar á skilaskyldu stjórnmálasamtaka til ríkisendurskoðanda. Frá og með árinu 2020 skal skila ársreikningum stjórnmálasamtaka fyrir síðastliðið ár eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Á sama tíma mun ríkisendurskoðandi ekki lengur birta útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka og uppgjörum frambjóðenda, heldur verða ársreikningar og uppgjör birt í heild sinni, auk lista yfir þá lögaðila sem styrktu framboðið og einstaklinga sem styrktu framboðið um a.m.k. 300 þús. kr.

Nöfn allra einstaklinga sem styrkja stjórnmálasamtök eða einstakling í persónukjör frá og með 1. janúar 2019 skal birta á vef Ríkisendurskoðunar ef framlag er hærra en 300 þús. kr. en viðmiðið hafði áður verið 200 þús. kr. Skil á ársreikningum vegna ársins 2018 og birting þeirra mun vera samkvæmt eldri lögum.

Að síðustu er vakin athygli á því að skilgreiningu á tengdum aðilum hefur nú verið breytt. Með tengdum aðilum er samkvæmt nýju lögunum átt við lögaðila, þar sem svo háttar til að annar aðili er í raun undir stjórn hins þar sem sá síðarnefndi á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í þeim fyrrnefnda. Einnig er átt við lögaðila þar sem einstaklingur á meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilum.

Nánari leiðbeiningar um reikningshald stjórnmálasamtaka og um uppgjör og upplýsingaskyldu frambjóðenda í persónukjöri má finna á þessari síðu um leiðbeiningar og eyðublöð

Mynd með frétt