Útlendingastofnun stjórnsýsluúttekt

Skýrsla til Alþingis

06.12.2018

Ríkisendurskoðandi telur að bæta megi áætlanagerð og skilvirkni í meðferð umsókna hjá Útlendingastofnun, auk þess að stytta málsmeðferðartíma, með því að innleiða upplýsingakerfi og taka upp rafrænt umsóknarkerfi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar Útlendingastofnun: Málsmeðferð og verklagsreglur, sem unnin var að beiðni Alþingis.

Upplýsingakerfi  sem þjónar þörfum stofnunarinnar og samstarfsaðila mun jafnframt auðvelda tölfræðivinnslu en í dag þarf að handvinna alla slíka upplýsingagjöf auk þess sem upplýsingar af umsóknareyðublöðum þarf að handfæra í upplýsingakerfi. Slík vinnsla er tímafrek, óhagkvæm og óskilvirk, auk þess sem hún eykur villuhættu. Þá getur rafrænt umsóknarkerfi bætt þjónustu við umsækjendur. Einnig bendir ríkisendurskoðandi á að mikilvægt sé að koma á reglubundinni þjálfun starfsfólks og að því sé settar skýrar verklagsreglur til að vinna eftir við mat og greiningu á einstökum málum.

Verkefni Útlendingastofnunar hafa aukist mikið á undanförnum árum. Handöfum dvalarleyfa hefur fjölgað um 134% frá 2009 og umsóknir um alþjóðlega vernd hafa 32 faldast. Á sama tíma hafa framlög úr ríkissjóði til útlendingamála átjánfaldast, úr 212,4 m.kr. í 3.770,1 m.kr. Brugðist hefur verið við auknum fjölda umsókna um alþjóðlega vernd að miklu leyti með átaksverkefnum, s.s. tímabundnum ráðningum til að afgreiða uppsafnaðar umsóknir. Þessi átaksverkefni hafa skilað tímabundnum árangri en fljótlega hefur sótt aftur í sama horfið og hafa slík verkefni ekki styrkti innviði Útlendingastofnunar eða stuðlað að hagkvæmni og skilvirkni til lengri tíma litið.

Þótt meðalmálsmeðferðartími umsókna hafi styst á tímabilinu 2009‒17 hefur Útlendingastofnun ekki náð markmiði stjórnvalda frá 2014 um 90 daga málsmeðferðartíma. Dómsmálaráðuneyti nú lýst því sem óraunhæfu markmiði og í fjármálaáætlun 2019‒23 hefur verið sett fram viðmið um að efnismeðferð umsókna verði að jafnaði lokið innan 150 daga.

Framlög vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur að undanförnum árum að miklu leyti komið fram í fjáraukalögum sem bendir til að áætlanagerð megi bæta. Þá er það umhugsunarefni hvort stjórnsýslustofnun, líkt og Útlendingastofnun, eigi að sinna umfangsmiklu þjónustuhlutverki á sviði velferðar-, félags- og menntamála.

Sjá nánar

Mynd með frétt