Rannsóknarframlög til háskóla óljós

Skýrsla til Alþingis

04.05.2018

Enn skortir gagnsæi og yfirsýn um rannsóknarframlög ríkisins til háskóla og nýtingu þess fjár. Þetta kemur fram í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um Rannsóknarframlög til háskóla.

Vegna yfirstandandi vinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis ítrekar Ríkisendurskoðun þó ekki ábendingu sína frá árunum 2012 og 2015 um að bæta þurfi utanumhald um framlög til rannsókna. Ráðuneytið hefur boðað umbætur við endurskoðun á fyrirkomulagi fjárveitinga til háskóla sem verður innleitt í þrepum á árunum 2020-22. Í því sambandi verður skoðað hvernig hægt verði að fylgjast betur með nýtingu rannsóknarframlaga til háskóla og tengja þær fjárveitingar við árangur og gæði.

Ríkisendurskoðun bendir engu að síður á að þrátt fyrir gildistöku og innleiðingu laga um opinber fjármál liggur heildstætt yfirlit um þá fjármuni sem verja á til rannsóknarstarfsemi á háskólastigi hvorki fyrir í fjármálaáætlunum né í fjárlögum. Það fé sem veitt er til starfseminnar skiptist á milli málaflokksins rannsóknarstarfsemi á háskólastigi og málaflokksins háskólar. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneyti tryggi úrbætur á þessu sviði til að auka gagnsæi og yfirsýn.

Sjá nánar