Bregðast þarf við læknaskorti á landsbyggðinni

Skýrsla til Alþingis

27.04.2018

Heildstæð heilbrigðisstefna er forsenda árangursríkrar heilsugæslu á landsbyggðinni og þess að hægt sé að endurbæta fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar. Því er brýnt að heilbrigðisráðherra leggi fram slíka stefnu.

Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar Heilsugæsla á landsbyggðinni. Heilsugæslan á landsbyggðinni glímir m.a. við læknaskort, ófullnægjandi aðgengi að læknisþjónustu á dagtíma og víðfeðm heilbrigðisumdæmi. Til að bregðast við þessu telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að tekin verði upp teymisvinna, þar sem aðrar heilbrigðisstéttir en læknar verði valdefldar og aukin áhersla verði lögð á fjarheilbrigðisþjónustu og fjárfestingu í slíkum búnaði. Einnig er mikilvægt að velferðarráðuneyti beiti sér fyrir því að vaktsvæði heilsugæslunnar verði endurskoðuð á grunni faglegs mats. Fram kemur í skýrslunni að erfiðlega hafi gengið að endurskoða slík vaktsvæði þrátt fyrir misskiptingu í mönnun lækna milli svæða miðað við þjónustuþörf.

Þá er því beint til velferðarráðuneytis að bregðast við mikilli verktöku lækna á landsbyggðinni til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, gerviverktöku og yfirboð heilbrigðisstofnana en í skýrslunni eru dregnar fram vísbendingar um alla ofangreinda þætti. Alls greiddu heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni um 1,4 ma.kr. árið 2016 fyrir verktöku lækna. Eins þurfa heilbrigðisstofnanir að afla sér faglegra leiðbeininga um hvernig standa eigi að verktakasamningum við lækna, teljist slíkir samningar nauðsynlegir.

Ríkisendurskoðun telur að endurskoða þurfi rekstrarfyrirkomulag tveggja heilsugæslustöðva á landsbyggðinni, annars vegar heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og hins vegar Heilsugæslunnar á Höfn í Hornafirði. Á fyrrnefnda staðnum leiðir mikið vaktaálag lækna, og þar af leiðandi mikill frítökuréttur, til þess að óeðlilega lágt hlutfall læknisviðtala er á dagvinnutíma. Því getur bið eftir þjónustu á dagtíma orðið óhóflega löng. Heilsugæslan á Höfn í Hornafirði er rekin með sérstökum samningi sveitarfélagsins á Höfn og Sjúkratrygginga Íslands og hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands því hvorki ákvörðunarvald yfir starfsemi heilsugæslunnar né áhrif á rekstur hennar, þrátt fyrir að bera á henni faglega og lagalega ábyrgð. Að mati Ríkisendurskoðunar er þetta fyrirkomulag óeðlilegt.

Sjá nánar