Jákvæðar breytingar á barnaverndarmálum

Skýrsla til Alþingis

06.03.2018

Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ítreka fjórar ábendingar sem beint var til velferðarráðuneytis árið 2015 um stöðu barnaverndarmála á Íslandi. Ráðuneytið er engu að síður hvatt til að stuðla að góðu samstarfi barnaverndaryfirvalda og eyða þeim samskiptavanda sem ríkt hefur milli aðila. Mikilvægt er að hagsmunir barna séu ávallt hafðir að leiðar­ljósi við ákvarðana­­töku innan mála­flokksins.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu fagnar Ríkisendurskoðun undirbúningi velferðarráðuneytis að mótun nýrrar stefnu á sviði barnaverndar til ársins 2030. Í þeirri vinnu er stefnt að virku og víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Einnig er stefnt að því að afmarka stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðuneytisins gagnvart Barnaverndarstofu og skýra sjálfstæði stofnunarinnar.

Núgildandi framkvæmda­áætlun á sviði barna­verndar kveður á um stofnun nýs með­ferðar­­heimilis fyrir unglinga á höfuðborg­ar­svæðinu og eins hefur velferðarnefnd Alþingis til umfjöllunar frumvarp sem fjallar um rétt barna með fjölþættan vanda til einstaklingsbundinnar þjónustu. Sömuleiðis vinnur ráðuneytið að reglugerð um þjónustu og búsetuúrræði fyrir þann hóp.

Með stofnun Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu, sem taka á til starfa í apríl nk., verður  leitast við að efla stjórnsýslu barnaverndar og aðskilja stjórnun og eftirlit frá veitingu þjónustu. Flutningur verkefna frá Barnaverndarstofu krefst endurskoðunar laga og er frumvarp þess efnis á þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings. Ríkisendurskoðun hvetur til þess að hugað verði að því að sameina þjónustuverkefni á sama sviði, í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun stjórnsýslu og eftirlits á sviði félagsþjónustu og barnaverndar frá maí 2016.

Sjá nánar/skyrslur/nanar?id=102