Ábendingar um Lyfjastofnun ekki ítrekaðar

Skýrsla til Alþingis

29.01.2018

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki tvær ábendingar til velferðarráðuneytis frá árinu 2015 er vörðuðu málefni Lyfjastofnunar, þar sem ráðuneytið hefur brugðist við þeim með viðunandi hætti. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu.

Í fyrri ábendingunni var bent á að finna þyrfti varanlega lausn á rekstrarvanda stofnunarinnar og uppsöfnuðum halla hennar. Haustið 2015 samþykkti Alþingi að hluti bundins eigin fjár Lyfjastofnunar yrði nýttur til að gera upp neikvæðan höfuðstól stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun bendir þó á að enn er ófrágengið hvernig almennt skuli gera upp bundið fé stofnana. Núverandi ástand skapar óvissu og gefur ranga mynd af stöðu þeirra. Mikilvægt er að efnahags- og fjármálaráðuneyti beiti sér fyrir því að tekið verði heildstætt á málinu fyrir allar stofnanir sem hafa bundið eigið fé.

Síðari ábendingin laut að því að meta þyrfti kostnað vegna lögbundinna stjórnsýsluverkefna Lyfjastofnunar og gera ráð fyrir honum í fjárlögum. Velferðarráðuneyti hefur áætlað að kostnaðurinn sé um 36 m.kr. á ári. Samþykkt var með fjárlögum fyrir árið 2018 að stofnunin fengi 15 m.kr. fjárveitingu til að standa straum af eftirliti með lækningatækjum. Í ljósi þess að heilbrigðisráðherra muni framvegis ákvarða fjárheimildir Lyfjastofnunar, sbr. 22. gr. laga um opinber fjármál, bendir Ríkisendurskoðun á að mikilvægt sé að fjárveitingar takið mið af þeim verkefnum sem stofnuninni er falið að sinna.

Sjá nánar