Yfirlit um ársreikninga staðfestra sjóða og stofnana

Staðfestir sjóðir og stofnanir

29.12.2017

Ríkisendurskoðun hefur birt yfirlit um ársreikninga staðfestra sjóða og sjálfseignarstofnana vegna ársins 2016.

Skv. lögum nr. 19/1988 er eftirlit með starfsemi staðfestra sjóða og sjálfseignarstofnana  í höndum sýslumannsins á Norðurlandi vestra og Ríkisendurskoðunar. Eftirlit Ríkisendurskoðunar felst fyrst og fremst í því að kanna hvort ársreikningar séu tölulega réttir. Sá sem ber ábyrgð á sjóði eða stofnun skal, eigi síðar en 30. júní ár hvert, senda Ríkisendurskoðun ársreikning fyrir árið á undan með skýrslu um hvernig fé sjóðs eða stofnunar hefur verið ráðstafað á því ári.

Í árslok 2017 voru 731 sjóður og stofnun á skrá. Á árinu 2017 voru staðfestar þrjár nýjar skipulagsskrár. Unnið var að því að leggja niður 15 sjóði og stofnanir sem talin eru óstarfhæf. Í byrjun desember 2017 höfðu 364 sjóðir eða stofnanir, sem lög nr. 19/1988 ná til, skilað ársreikningi fyrir rekstrarárið 2016 og eru niðurstöðutölur rekstrar- og efnahagsreikninga þeirra að finna í yfirlitinu.

364 sjóðir eða stofnanir hafa ekki skilað Ríkisendurskoðun ársreikningi fyrir rekstrarárið 2016. Þar af eru 22 sjóðir eða stofnanir sem ekki hafa skilað ársreikningi í áratug eða lengur og 96 sem ekki hafa skilað ársreikningi í fimm til tíu ár. Ekki er vitað um síðustu skil 56 sjóða eða stofnana en margar þeirra hafa aldrei skilað ársreikningi.  Þrátt fyrir árvissar ítrekanir Ríkisendurskoðunar við forsvarsmenn staðfestra sjóða og sjálfseignarstofnana undanfarin ár hafa skil ekki batnað. Hafa verður í huga í þessu sambandi að stjórnvöld hafa skv. gildandi lögum ekki sambærilegar heimildir og t.d. ársreikningaskrá RSK til þess að beita einhverskonar refsiviðurlögum, svo sem dags- eða vikusektum, vegna síðabúinna skila eða annarra vanrækslu.  Af þessum sökum hyggst stofnunin fara þess á leit við dómsmálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að lögfest verði efnislega sambærilegt sektarákvæði og mælt er fyrir um í 42. gr. laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir, sem stunda atvinnu.

Sjá nánar

Mynd með frétt