Ríkisreikningur 2016 endurskoðaður

Endurskoðunarskýrsla

15.12.2017

Ríkisendurskoðandi hefur nú birt skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings 2016.

Heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2016 námu um 868 milljörðum króna en tekjurnar um 1.163 milljörðum króna. Bókfærðar eignir ríkissjóðs námu 1.141 milljarði króna í árslok og hækkuðu um 129 milljarða milli ára. Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.835 milljörðum króna og lækkuðu um liðlega 89 milljarða milli ára. Hækkun lífeyrisskuldbindinga nam 103 milljörðum króna. Eigið fé ríkissjóðs var í árslok 2016 neikvætt um 694 milljarða, samanborið við 913 milljarða króna neikvæða stöðu í árslok 2015.

Meðal helstu athugasemda og ábendinga ríkisendurskoðanda við ríkisreikning 2016 eru:

  • Skýrsla staðfestingaraðila um framkvæmd og uppgjöri á almennri leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána staðfestir að uppgjörið var unnið í samræmi við fyrirmæli. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna leiðréttingarinnar nam 71 milljarði króna á árunum 2014 – 2016.
  •  Ríkisendurskoðandi leggur áherslu á að í ríkisreikningi verði gerð verði grein fyrir útistandandi málaferlum ríkissjóðs til að greina hugsanlegar skuldbindingar vegna bótakrafna á hendur ríkissjóði.
  • Heildartekjur ríkissjóðs af stöðugleikaframlögum námu 414,6 milljörðum króna skv. rekstrarreikningi 2016. Að mati ríkisendurskoðanda hefði verið skýrara að færa 384,2 milljarða til tekna, sem er matsverð framlagðra eigna á afhendingardegi og sérgreina áunnar tekjur og áfallin gjöld frá þeim tíma á viðeigandi reikningsliði.
  • Ríkisendurskoðandi bendir á nauðsyn þess að tekin verði ákvörðun um framtíð Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., og um ráðstöfun óseldra eigna og því fylgt eftir að félagið geri skil á fjármunum til ríkissjóðs.
  • Upplýsingar um meðferð og afföll af framseldum skuldabréfum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna greiðslu á sérstöku framlagi til A-deildar lífeyrissjóðsins eru ekki tilgreindar með viðeigandi hætti í ríkisreikningi.

Eitt meginverkefna Ríkisendurskoðunar samkvæmt lögum er að endurskoða ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Gerð er grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum þessarar vinnu í árlegri skýrslu til Alþingis. Árið 2016 er síðasta reikningsárið sem ríkisreikningur er gerður í samræmi við lög nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Á undanförnum árum hefur ríkisendurskoðandi gert athugasemdir við að einstaka liðir í ríkisreikningi séu ekki í samræmi við lög um ársreikninga og að reikningurinn fylgi ekki fjárreiðulögum að öllu leyti. Ný lög nr. 123/2015 um opinber fjármál leyfa ekki slík frávik frá reikningsskilareglum.

Sjá nánar

Mynd með frétt