Standa þarf við skuldbindingar erfðagjafar

Skýrsla til Alþingis

01.11.2017

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar til forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis frá 2014 um Lækningaminjasafn Íslands og framtíðarfyrirkomulag lækningaminja.

Minjarnar eru varðveittar hjá Þjóðminjasafni Íslands og unnið er að endurheimt stofnkostnaðar ríkisins vegna brostins samnings við Seltjarnarnesbæ um rekstur safnsins og húsnæði. Stjórnvöld eru engu að síður hvött til að standa við skuldbindingar sínar um að nýta erfðagjöf Jóns Steffensen í þágu lækningaminjasafns eða semja við Læknafélag Íslands um ráðstöfun þeirra fjármuna. Bent er á að stjórnvöld ættu einungis að þiggja gjafir með kvöðum að vandlega athuguðu máli.

Árið 2007 tók Seltjarnarnesbær að sér rekstur Lækningaminjasafns Íslands og byggingu húsnæðis fyrir það samkvæmt sérstökum samningi við ríkið, Læknafélag Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Læknafélag Reykjavíkur. Mennta- og menningarmálaráðuneyti lagði fram 75 m.kr. stofnframlag til byggingarinnar og skuldbatt sig einnig til að nýta erfðagjöf Jóns Steffensen frá árinu 2000 í þágu safnsins. Um var að ræða húseign að Bygggörðum 7 auk lausafjár. Árið 2012 sagði Seltjarnarnesbær sig frá samningi sínum og hætti rekstri safnsins og byggingarframkvæmdum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur nú stofnað til innheimtumáls á hendur Seltjarnarnesbæ til að endurheimta kostnað sinn vegna byggingarinnar.

Í ársbyrjun 2017 seldi ríkissjóður Seltjarnarnesbæ Bygggarða 7 fyrir 97 m.kr. Ríkisendurskoðun telur eðlilegt að söluandvirðið verði nýtt í samræmi við skuldbindingar erfðagjafarinnar. Stofnunin hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti til að hafa samráð við Læknafélag Íslands um ráðstöfun fjárins og framtíðarfyrirkomulag lækingaminja.

Sjá nánar