Skýra og ábyrga stefnu um ferðamál skortir

Skýrsla til Alþingis

09.10.2017

Mikilvægt er að endurskoða lagaumhverfi ferðamála og setja fram skýra stefnu um skipan ferðamála að mati Ríkisendurskoðunar.

Í nýrri stjórnsýsluúttekt um skipan ferðamála kemur fram að skipting ábyrgðar og hlutverka innan málaflokksins er óskýr. Stjórnstöð ferðamála, sem komið var á fót árið 2015, hefur ekki orðið til þess að einfalda skipulag ferðamála, þrátt fyrir að hún hafi verið hugsuð sem samhæfingar- og samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila. Ríkisendurskoðun telur brýnt að hlutverk og ábyrgð Stjórnstöðvarinnar gagnvart stjórnsýslustofnunum í málaflokknum verði gerð skýrari, m.a. til að koma í veg fyrir tvíverknað.

Ríkisendurskoðun telur einnig mikilvægt að endurskoða skipulag verkefna innan stjórnsýslu ferðamála þar sem sjónum er sérstaklega beint að tækifærum til einföldunar. Má þar nefna möguleikann á að taka upp eina leyfisgátt í ferðaþjónustu og einfalda eftirlit með leyfisveitingum. Einnig þarf að skoða hvernig starf Íslandsstofu og Ferðamálastofu skarast í markaðs- og kynningarmálum og annaðhvort skýra hlutverk ferðamálaráðs eða leggja ráðið niður.

Sjá nánar