Aukin fræðsla um siðareglur Stjórnarráðsins

Skýrsla til Alþingis

30.08.2017

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki þrjár ábendingar sínar til forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis frá árinu 2014 vegna kynningar, framfylgd og eftirlits á siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands, þar sem ráðuneytin hafa brugðist við með ásættanlegum hætti.

Stofnunin hvetur bæði ráðuneytin til að leggja áfram áherslu á gildi siðareglnanna í starfsemi Stjórnarráðsins og vinna þeim markvisst brautargengi.

Bæði ráðuneytin voru hvött til að tryggja reglubundna fræðslu um siðareglurnar. Þessu er nú fylgt eftir með fræðslu um siðareglurnar á nýliðanámskeiðum Stjórnarráðsskólans en á þau námskeið hefur verktökum og starfsfólki á vegum Rekstrarfélags Stjórnarráðsins einnig verið boðið að mæta. Samkvæmt upplýsingum frá öllum ráðuneytum eru siðareglurnar víða sýnilegar á veggspjöldum og aðgengilegar á innri vef ráðuneytanna.  Einnig hefur dönsk handbók um siðareglur fyrir starfsmenn ráðuneyta verið þýdd og er til athugunar að aðlaga hana íslenskum aðstæðum.

Til að skýra ábyrgð á framfylgd reglnanna og samræma stefnu ráðuneytanna er til athugunar að samráðshópi ráðuneytanna um löggjafarmálefni verði falið að tryggja samstarf um málefni tengdum siðareglunum. Þá hefur lögum nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands verið breytt og samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið lögð niður en forsætisráðuneyti hafði verið bent á það árið 2014 að skipa þyrfti þá nefnd eða vinna að breytingum á viðeigandi lagaákvæði.

Sjá nánar

Mynd með frétt