Langflest börn skráð hjá heimilistannlækni

Skýrsla til Alþingis

20.03.2017

Undirbúningur er nú hafinn að samræmdi skráningu og innköllun tannheilsugagna barna og ungmenna hjá Embætti landlæknis. Þá eru nú um 91% barna sem eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum skráð hjá heimilistannlækni.

Því eru ábendingar Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytis frá árinu 2014 um að ráðuneytið láti rannsaka tannheilsu barna og að ráðuneytið beiti sér fyrir því að fleiri börn verði skráð hjá heimilistannlæknum ekki ítrekaðar. Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um átaksverkefni um tannlækningar fyrir börn tekjulágra forráðamanna.

Ríkisendurskoðun telur að mikill árangur hafi náðst í skráningum barna og ungmenna hjá heimilistannlæknum. Árið 2014 voru 64% barna skráð hjá heimilistannlæknum en það hlutfall hefur nú hækkað í 91%. Einnig sýna upplýsingar frá velferðarráðuneyti að Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt fyrir tannlækningar 46.167 barna árið 2016. Það eru 69% barna sem rétt eiga á niðurgreiddri tannlæknaþjónustu í samræmi við samning um tannlækningar barna frá 2013.

Ríkisendurskoðun telur einnig jákvætt að undirbúningur sé hafinn að samræmdri skráningu og innköllun tannheilsugagna barna og ungmenna, enda ætti slíkt að auðvelda rannsóknir á tannheilsu þeirra. Velferðarráðuneyti er engu að síður hvatt til þess að stuðla að því að slíkar rannsóknir verði gerðar.

Sjá nánar

Mynd með frétt