Fjárveitingar Raunvísindastofnunar falli undir Háskóla Íslands

Almennt

16.03.2017

Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti til að geta rannsóknarframlaga til háskóla í fjárlögum meðal fjárheimilda málaflokksins „Rannsóknarstarfsemi á háskólastigi“. Jafnframt verði framlög til Raunvísindastofnunar Háskólans Íslands felld undir rannsóknarstarfsemi Háskólans, hugsanlega sem sérstakt viðfang.

Ríkisendurskoðun telur að núverandi framsetning  fjárlaga veiti ófullnægjandi yfirlit um fjárveitingar ríkisins til rannsóknarstarfsemi á háskólastigi. Ekki verður séð að lög um opinber fjármál hindri að fjárveiting til háskóla falli undir fleiri en einn málaflokk, líkt og fjárveitingar til heilbrigðisstofnana sýna. Þá ber að geta þess að Raunvísindastofnun Háskólans heyrir undir háskól­ann, er samofin starfsemi hans og endanleg ábyrgð á fjárhag hennar er á hendi háskólarektors.

Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar um Stjórnun og rekstur Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Ríkisendurskoðun kom fyrst með ábendingar um skýrara skipulag, stjórnun og rekstur Raunvísindastofnunar árið 2011 og ítrekaði hluta þeirra ábendinga í eftirfylgniskýrslu árið 2014.

Sjá nánar