Ástæðulaust að ítreka ábendingar

Almennt

15.03.2017

Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingar sínar til velferðarráðuneytis frá 2014 um úrbætur á sviði vinnumarkaðsmála og stjórnskipulagi Vinnumálastofnunar.

Ábendingarnar komu fyrst fram í skýrslunni Vinnumálastofnun (2008) og voru síðar ítrekaðar í Skýrslu um eftirfylgni: Vinnumálastofnun (2011). Þetta er því þriðja eftirfylgniskýrslan vegna ábendinga um umhverfi Vinnumálastofnunar.

Ráðuneytið hefur komist að afdráttarlausri niðurstöðu um að ekki eigi að breyta stjórnskipulagi Vinnumálastofnunar og sjóða hennar í samræmi við ábendingu Ríkisendurskoðunar. Ástæðan er skýr vilji samtaka á vinnumarkaði að breyta hvorki stjórn Vinnumálastofnunar né sjóða hennar.

Þá telur ráðuneytið einnig að sameining Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins, umfram núverandi samnýtingu á húsnæði, muni litlu skila til hagræðingar og telur því ekki nauðsynlegt að endurskoða stofnanaskipan á sviði vinnumarkaðsmála.

Með breytingum á lögum um opinber fjármál hefur verið komið til móts við ábendingu um gerð árangursstjórnunarsamnings við Vinnumálastofnun. Ríkisendurskoðun bendir þó á að mikilvægt sé að árangursmælikvarðar verði skilgreindir með skýrum hætti.

Ríkisendurskoðun beindi því jafnframt til velferðarráðuneytis að kanna fýsileika þess að sameina greiðslukerfi vegna almannatrygginga, meðal annars vegna mögulegra breytinga á skipan þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Að mati Ríkisendurskoðunar er útséð um slíkar breytingar. Stofnunin hvetur ráðuneytið samt sem áður að huga að sameiningu greiðslukerfa til að tryggja greiðsluþegum samræmt greiðsluyfirlit, óháð því hvaða stofnun beri ábyrgð á framkvæmd greiðslunnar.

Sjá nánar