Ný lög taka gildi

Almennt

03.01.2017

Um áramót tóku gildi ný lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings nr. 46/2016. Lög þessi er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um Ríkisendurskoðun nr. 86/1987 sem hófst árið 2011.

Þar sem um heildarendurskoðun var að ræða felst í nýjum lögum nokkrar breytingar frá fyrri lögum þó svo að ekki sé um breytingar á meginverkefnum stofnunarinnar.

Lög nr. 46/2016 skiptast í sex kafla: I. Kosning ríkisendurskoðanda og hlutverk; II. Endurskoðun og eftirlit; III. Aðgangur að reikningsskilum, gögnum og upplýsingum; IV. Málsmeðferðarreglur; V. Skýrslugerð og upplýsingagjöf; og VI. Ýmis ákvæði.

Meðal breytinga er að næsti ríkisendurskoðandi verður kosinn af Alþingi til sex ára í senn og getur lengst setið í tólf ár. Ekki verður lengur gerð krafa um að ríkisendurskoðandi sé löggiltur endurskoðandi og er það í samræmi við þá kröfu sem gerð er til ríkisendurskoðanda á öðrum Norðurlöndum.

Í stað þess að vísa til góðrar endurskoðunarvenju við framkvæmd fjárhagsendurskoðunar segir nú 9. gr. að líta skuli til alþjóðlegra endurskoðunarstaðla (ISSAI) og verklagsreglna sem gilda um endurskoðun hjá opinberum aðilum, eftir því sem við á.  Aðild að alþjóðasamtökum er formlega heimiluð sem og innleiðing endurskoðunarstaðla alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI).

Í lögunum er nú nýr kafli um málsmeðferðarreglur. Má þar nefna 12. gr. um þagnarskyldu starfsmanna en starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafa í siðareglum sínum áður verið bundnir þagnarskyldu um það sem leynt á að fara. 13. gr. fjallar um hæfi starfsmanna, með vísan til stjórnsýslulaga. Samkvæmt 14. gr. skal senda hlutaðeigandi  aðilum drög að skýrslum, greinargerðum og endurskoðunarbréfum til umsagnar  áður en endanleg gerð þeirra er birt.

Ríkisendurskoðandi skal nú birta opinberlega endurskoðunarbréf sín, auk skýrslna og greinargerða sem þegar eru birt. Þetta á þó ekki við um endurskoðunarbréf til stjórnenda fyrirtækja og stofnana sem eru á markaði. Ef óskað er eftir frekari gögnum frá Ríkisendurskoðun, sem stjórnvald eða annar eftirlitsskyldur aðili hefur afhent stofnunni, skal þeirri beiðni beint til hlutaðeigandi stjórnvalds eða aðila. Ef óskað er eftir gögnum sem hafa orðið til í samskiptum við eftirlitsskylds aðila fer aðgangur að þeim eftir ákvæðum upplýsingalaga. Ákvarðanir Ríkisendurskoðanda um aðgang að gögnum sætir þó ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Nú er það stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem getur farið fram á að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um einstök mál eða málaflokka. Sama gildir ef níu þingmenn óska þess með skýrslubeiðni í þingsal. Ekki er lengur gert ráð fyrir að aðrar fastanefndir, svo sem forsætisnefnd eða fjárlaganefnd, geti óskað eftir skýrslum ríkisendurskoðanda.