Orri þjóni þörfum allra ríkisstofnana

Skýrsla til Alþingis

25.02.2016

Unnið er að því að þróa fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orra) þannig að það geti betur þjónað þörfum ríkisstofnana. Stefnt er að því að önnur kerfi verði einungis notuð í undantekningartilvikum.

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna (SRS) annaðist þar til á síðasta ári bókhalds- og greiðsluþjónustu fyrir ýmsar stofnanir, m.a. Hafrannsóknarstofnun og Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís). Skrifstofan nýtti fjárhagskerfi sem byggði á svonefndum Navison-hugbúnaði en ekki fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orra). Var ástæðan sú að umræddur hugbúnaður var álitinn þjóna þörfum stofnananna betur en Orri.

Árið 2013 lagði Ríkisendurskoðun til að stjórnvöld könnuðu hvort þörf væri fyrir þjónustu skrifstofunnar. Einnig hvatti stofnunin stjórnvöld til að tryggja að Orri gæti þjónað þörfum allra ríkisstofnana.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að SRS var lögð niður hinn 1. janúar 2015. Einnig kemur fram að stofnunum sem nota önnur fjárhagskerfi en Orra hefur fækkað og unnið sé að því að þróa kerfið til að mæta þörfum þeirra. Stefnt sé að því að önnur kerfi en Orri verði einungis notuð í undantekningartilvikum.

Sjá nánar