Samningamál ráðuneytanna hafa færst í betra horf

Skýrsla til Alþingis

17.12.2015

Komið hefur verið til móts við langflestar ábendingar Ríkisendurskoðunar um skuldbindandi samninga ráðuneyta og stofnana.

Á árunum 2011–12 gaf Ríkisendurskoðun út samtals átta skýrslur um skuldbindandi samninga ráðuneyta og stofnana við aðila utan ríkisins. Um er að ræða samninga um margvísleg verkefni sem samtök, einkaðilar og sveitarfélög hafa tekið að sér gegn greiðslum úr ríkissjóði. Alls voru virkir samningar af þessu tagi 179 árið 2011 og nam áætlaður heildarkostnaður af þeim um 39,6 ma.kr. það ár. Um 82% kostnaðarins var vegna þriggja ráðuneyta: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti), velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Ríkisendurskoðun taldi að ýmislegt mætti betur fara í framkvæmd, eftirliti og eftirfylgni ráðuneyta með þessum samningum. Hjá sumum ráðuneytum skorti t.d. yfirsýn um þær skuldbindingar sem samningar kváðu á um. Þá voru dæmi um að greitt væri eftir útrunnum samningum, eftirliti væri ábótavant og greiðslur ekki í samræmi við ákvæði samninga. Alls setti stofnunin fram 41 ábendingu og var fjöldi þeirra til hvers ráðuneytis nokkuð í takt við fjölda samninga sem þau höfðu á sínum vegum. Flestar ábendingar voru í skýrslum um samningamál mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis eða níu. Sjö ábendingum var beint til innanríkisráðuneytis. Fæstar ábendingar voru til umhverfisráðuneytis (nú umhverfis- og auðlindaráðuneyti) og forsætisráðuneyti fékk enga ábendingu þar sem það hafði þá ekki lengur neinn skuldbindandi samning á sínum vegum.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú, þremur til fjórum árum frá útgáfu skýrslnanna, hefur margt færst til betri vegar í samningamálum ráðuneytanna. Komið hefur verið til móts við 39 ábendingar af 41 með þeim hætti að Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka þær. Hins vegar sér stofnunin ástæðu til að ítreka eina ábendingu sem beint var til velferðarráðuneytis og aðra sem beint var til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Fyrrnefnda ráðuneytið er hvatt til að efla eftirlit sitt og eftirfylgni á samningstíma með reglulegum úttektum. Hið síðarnefnda er hvatt til að koma meðferð innsendra gagna frá samningsaðilum og endurgjöf til þeirra í formlegri farveg en verið hefur.

Sjá nánar