Veruleg áhætta vegna ábyrgða á lánum Farice

Skýrsla til Alþingis

24.11.2015

Fjárhagsstaða Farice ehf. hefur batnað á undanförnum árum. Engu að síður telur Ríkisendurskoðun að áhætta ríkissjóðs vegna ábyrgða á lánum félagsins sé veruleg.

Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um aðkomu ríkisins að málefnum Farice ehf. sem á og rekur sæstrengi milli Íslands og meginlands Evrópu. Í skýrslunni kom m.a. fram að fjárhagsstaða félagsins væri erfið og að ríkið hefði þurft að leggja því til fé, bæði í formi hlutafjár og skammtímalána, og gangast í ábyrgðir vegna lántöku þess. Í árslok 2012 hefðu ríkið og Landsvirkjun átt um 60% í félaginu.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á tímabilinu 2012–14 hafi fjárhagsstaða félagsins batnað umtalsvert. Tap af rekstri hafi minnkað og skuldir lækkað. Engu að síður telur stofnunin að áhætta ríkissjóðs vegna ábyrgða á lánum félagsins sé veruleg. Í árslok 2014 námu skuldir félagsins um 8,3 milljörðum króna og var ríkisábyrgð á um 85% af þeirri fjárhæð.

Í skýrslu sinni árið 2012 benti Ríkisendurskoðun á að verklag við veitingu ríkisábyrgða vegna Farice hefði ekki alltaf verið í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Þá hefði komið fyrir að vantað hefði heimildir í fjárlögum og fjáraukalögum vegna aðkomu ríkisins að félaginu eða þá að þær hefðu verið ófullnægjandi á einhvern hátt. Enn fremur hefði þjónustusamningur Fjarskiptasjóðs (sem úthlutar fjármunum til uppbyggingar á stofnkerfum fjarskipta) við félagið ekki verið í fullu samræmi við reglur.

Vegna þessara annmarka beindi Ríkisendurskoðun nokkrum ábendingum til stjórnvalda og Fjarskiptasjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið var m.a. hvatt til að virða skilyrði laga um ríkisábyrgðir og tryggja að skýringar með tillögum um fjárveitingar í frumvörpum til fjárlaga og fjáraukalaga væru ávallt fullnægjandi. Innanríkisráðuneytið var hvatt til að tryggja Fjarskiptasjóði fjárhagslegt bolmagn til að fylgja eftir skuldbindingum í þjónustusamingi hans við Farice. Fjarskiptasjóður var hvattur til að skilgreina betur tiltekin atriði í þjónustusamningnum.

Í eftirfylgniskýrslunni kemur fram að frá 2012 hafi mál þróast með þeim hætti að Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ítreka þessar ábendingar.

Sjá nánar