Eftirfylgni með skýrslu um Ábyrgðasjóð launa

Skýrsla til Alþingis

06.11.2015

Ríkisendurskoðun telur að komið hafi verið til móts við ábendingar hennar frá árinu 2012 um rekstur og fjárhagsstöðu Ábyrgðarsjóðs launa.

Hlutverk Ábyrgðasjóðs launa er að tryggja hagsmuni laun­þega við gjaldþrot eða andlát at­vinnu­rek­anda. Ábyrgð sjóðsins nær til krafna vegna vangoldinna launa, lífeyrisiðgjalda o.fl. sem fallið hafa í gjalddaga á allt að 18 mánaða tímabili áður en atvinnurekandi er úrskurðaður gjaldþrota. Skilyrði fyrir afgreiðslu sjóðsins er að honum hafi borist yfirlýsing skiptastjóra um réttmæti viðkomandi krafna. Vinnumálastofnun annast daglega umsýslu fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi.

Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um rekstur og fjárhagsstöðu Ábyrgðasjóðs launa þar sem nokkrum ábendingum var beint til hans, velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar.

Ráðuneytið var hvatt til að

  • kanna möguleika á að stytta 18 mánaða ábyrgð sjóðsins á lífeyrissjóðskröfum og setja tímamörk á skil umsagna skiptastjóra til sjóðsins. Með þessu móti taldi Ríkisendurskoðun að draga mætti úr vaxtakostnaði sjóðsins þar sem kröfur til hans bera vexti á ábyrgðartíma og einnig meðan beðið er umsagnar skiptastjóra.
  • breyta framsetningu í fjárlögum á kostnaðarhlutdeild sjóðsins í rekstri Vinnumálastofnunar. Ríkisendurskoðun taldi að þessi hlutdeild þyrfti að koma skýrar fram.

Stjórn Ábyrgðarsjóðs launa var hvött til að

  • setja sér formlegar starfsreglur þar sem kveðið sé á um verksvið stjórnarinnar og samskipti hennar við Vinnumálastofnun og stjórnvöld.
  • uppfæra og samþykkja með formlegum hætti verklagsreglur sjóðsins um afgreiðslu launa-, lífeyris- og orlofskrafna vegna greiðsluerfiðleika.
  • fylgja því eftir að eiginfjárstaða sjóðsins yrði bætt með því að hækka ábyrgðargjald af greiddum vinnulaunum í samræmi við fjölgun krafna.

Ráðuneytið, Vinnumálastofnun og Ábyrgðarsjóður launa voru hvött til að

  • endurskoða þjónustusamning um daglega umsýslu Vinnumálastofnunar fyrir sjóðinn. Skilgreina þyrfti verkefnin betur sem og forsendur útreiknings á kostnaðarhlutdeild sjóðsins í rekstri stofnunarinnar.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ráðuneytið og stjórn Ábyrgðarsjóðs launa telji ekki rétt stytta ábyrgðartímabil sjóðsins né heldur setja tiltekin tímamörk á skil umsagna skiptastjóra til hans. Betra sé að skerpa á verklagi. Ríkisendurskoðun fellst á röksemdir þessara aðila og ítrekar því ekki ábendingu um framangreind atriði. Engu að síður hvetur stofnunin ráðuneytið til fylgjast vel með þróun mála og grípa til aðgerða ef þörf krefur.

Ríkisendurskoðun telur að komið hafi verið til móts við aðrar ábendingar skýrslunnar frá 2012.

Sjá nánar