Ítrekar ekki ábendingar vegna kaupa og innleiðingar á fjárhagsupplýsingakerfi ríkisins

Skýrsla til Alþingis

26.06.2015

Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ítreka ábendingar sínar frá árinu 2012 um kaup og innleiðingu á fjárhagsupplýsingakerfi fyrir ríkið (Orra).Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um hvernig staðið var að kaupum og innleiðingu á nýju fjárhagsupplýsingakerfi fyrir ríkið (Orra). Samið var við fyrirtækið Skýrr hf. (nú Advania hf.) um kaup á kerfinu árið 2001 að undangengnu útboði. Upphaflega átti innleiðingu að vera lokið í apríl 2003 en endanlegt fjárhagsuppgjör vegna hennar fór ekki fram fyrr en í nóvember 2009 og henni lauk ekki formlega fyrr en í febrúar 2015.

Fram kom í skýrslunni að heildarkostnaður ríkisins vegna Orra hefði numið um 5,9 milljörðum króna á árunum 2001–11. Stofnkostnaður kerfisins hefði orðið um 41% hærri en kaupsamningur kvað á um. Ríkisendurskoðun gagnrýndi að upplýsingar um kostnað kerfisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001 hefðu verið ófullkomnar.

Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun samtals fimm ábendingum til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Fjársýslu ríkisins.
Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Tryggja að í greinargerð með fjárlagafrumvarpi kæmu jafnan fram fullnægjandi upplýsingar um umfang og eðli þeirra fjárskuldbindinga sem áformað væri að stofna til.
  • Bæta vinnubrögð sín við gerð tímaáætlana vegna innleiðingar á umfangsmiklum hugbúnaði. Byggja þyrfti slíkar tímaáætlanir á faglegu áhættumati.
  • Bæta vinnubrögð sín við áætlun kostnaðar vegna kaupa og innleiðingar á umfangsmiklum hugbúnaði. Gera yrði heildstæðar kostnaðaráætlanir vegna slíkra verkefna.

Fjársýslan var hvött til að:

  • Vinna lokaúttekt vegna innleiðingar á Orra til að unnt væri að ljúka henni formlega.
  • Tryggja notendum kerfisins viðeigandi fræðslu og þjálfun

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur verið brugðist þannig við framangreindum ábendingum að ekki er talin þörf á að ítreka þær. Engu að síður telur Ríkisendurskoðun ástæðu til að árétta mikilvægi þess að greinargerð með frumvarpi til fjárlaga feli ávallt í sér fullnægjandi upplýsingar um þær skuldbindingar sem áformað er að stofna til. Þá bendir stofnunin á að ávallt þurfi að vanda til áætlunargerðar vegna verkefna ríkisins, ekki síst þegar um er að ræða kaup og innleiðingu á umfangsmiklum og dýrum hugbúnaði.

Sjá nánar