Stjórnvöld endurmeti ákvörðun um breytta stjórnsýslu safnamála

Skýrsla til Alþingis

16.06.2015

Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að endurmeta ákvörðun sína um að færa hluta safnamála frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis.Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um málefni safna þar sem stjórnvöld voru hvött til að móta heildstæða stefnu um málaflokkinn og gera langtímaáætlun um fjárveitingar til hans. Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að safnaráð vinni nú að mótun heildstæðrar stefnu á sviði safnamála. Gert sé ráð fyrir fyrstu tilllögum þess í  ár. Þá kemur fram að með gildistöku væntanlegra laga um opinber fjármál verði langtímaáætlun um fjárveitingar til safna óaðskiljanlegur hluti af fjárlagagerð hvers árs. Af þessum ástæðum telur Ríkisendurskoðun ekki rétt að ítreka áðurnefndar ábendingar sínar. Stofnunin hvetur safnaráð þó til að ljúka vinnu sinni sem fyrst og ráðuneytið til að vanda vel til þeirra verkefna sem ný löggjöf um opinber fjár­mál mun kalla á.

Í skýrslunni er einnig vakin sérstök athygli á breytingum sem urðu á stjórnsýslu safnamála með forsetaúrskurði  árið 2013. Þá var forræði yfir einu þriggja höfuðsafnanna, Þjóðminjasafni Íslands, fært frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis. Samkvæmt safnalögum fer mennta- og menningarmálaráðherra þó með yfirstjórn málaflokksins. Sömuleiðis heyra málefni annarra minjasafna undir það. Vegna þessa sem og þekkingar ráðuneytisins á málefnum safna telur Ríkisendurskoðun að óskorað forræði þess yfir safnamálum stuðli að skilvirkri, markvissri og faglegri stjórn þeirra. Stofnunin hvetur því stjórnvöld til að taka þá breyttu tilhögun sem felst í áðurnefndum forsetaúrskurði til endurmats.

Þess má að lokum geta að skýrsla Ríkisendurskoðunar árið 2012 var eftirfylgni með stjórnsýsluúttekt stofnunarinnar frá árinu 2009.

Sjá nánar