Tryggja þarf að erlend verkefni Landhelgisgæslunnar bitni ekki á innlendri starfsemi hennar

Almennt

15.06.2015

Ríkisendurskoðun hvetur innanríkisráðueytið til að hafa eftirlit með því að verkefni Landhelgisgæslunnar erlendis komi ekki niður á getu hennar til að sinna lögbundnum skyldum sínum hér við land.Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fjallað var um verkefni Landhelgisgæslu Íslands fyrir erlenda aðila, m.a. Landamærastofnun Evrópu og Evrópusambandið. Leitast var við að meta fagleg og fjárhagsleg áhrif þessara verkefna á innlenda starfsemi stofnunarinnar. Niðurstaðan var sú að þau hefðu falið í sér faglegan og fjárhagslegan ávinning. Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun engu að síður nokkrum ábendingum um úrbætur til innanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar.

Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Beita sér fyrir því að lögum yrði breytt og skýrar kveðið á um heimild Landhelgisgæslunnar til að taka að sér verkefni erlendis.
  • Vinna með Landhelgisgæslunni að gerð landhelgisáætlana til þriggja og tíu ára.
  • Hafa markvisst eftirlit með því að umfang verkefna Landhelgisgæslunnar erlendis hefði ekki neikvæð áhrif á lögbundna starfsemi stofnunarinnar.

Landhelgisgæslan var hvött til að:

  • Vinna með innanríkisráðuneytinu að gerð landhelgisáætlana til þriggja og tíu ára.
  • Greina kostnað við verkefni erlendis betur frá kostnaði vegna annarra verkefna.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur síðastnefnda ábendingin verið framkvæmd. Þá sé unnið að því að bregðast við ábendingum um gerð landhelgisáætlana og breytingu á lögum. Því telur Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að ítreka þessar ábendingar að svo stöddu. Aftur á móti telur stofnunin óljóst með hvaða hætti innanríkisráðuneytið hyggst sinna eftirliti með áhrifum erlendra verkefna Landhelgisgæslunnar á lögbundna starfsemi hennar.  Ábending hér að lútandi er því ítrekuð.

Sjá nánar