Tekið verði á rekstrarvanda HSA

Skýrsla til Alþingis

08.06.2015

Tryggja þarf að rekstur Heilbrigðisstofnunar Austurlands sé innan fjárheimilda. Þá er mikilvægt að greiða niður uppsafnaðan rekstrarhalla stofnunarinnar sem nam um 278 milljónum króna um síðustu áramót.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hefur um langt árabil glímt við alvarlegan rekstrarvanda. Uppsafnaður rekstrarhalli stofnunarinnar nam um 278 milljónum króna í lok síðasta árs. Skýrslan er eftirfylgni með skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni HSA sem birt var árið 2012, en sú skýrsla var eftirfylgni með skýrslu sem kom út árið 2009.

Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið og stjórnendur HSA til að taka á framangreindum vanda. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að hafa öflugt eftirlit með fjárreiðum HSA til að tryggja að rekstur hennar rúmist innan fjárheimilda. Þá er stjórnendum HSA bent á að stofnuninni er óheimilt að efna til útgjalda umfram heimildir. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að uppsafnaður halli stofnunarinnar verði greiddur niður.

Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að velferðarráðuneytið þurfi að axla aukna ábyrgð á forgangsröðun verkefna hjá HSA. Það eigi síðan að beita sér fyrir því að fjárveitingar til stofnunarinnar séu í samræmi við þá þjónustu sem henni er ætlað að veita.

Í skýrslunni er bent á að skammtímaskuldir HSA hafi aukist verulega undanfarin ár með tilheyrandi vaxtakostnaði. Ríkisendurskoðun hvetur stofnunina til að taka á þessari stöðu.

Sjá nánar