Bæta þarf utanumhald um rannsóknarframlög til háskóla

Skýrsla til Alþingis

29.05.2015

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að rannsóknarframlög til háskóla verði betur skilgreind í fjárlögum. Skólarnir þurfi að halda sérstaklega utan um hvernig féð er nýtt.Í skýrslunni Rannsóknarframlög til háskóla (2012) vakti Ríkisendurskoðun athygli á því að opinber fjármögnun háskólarannsókna væri flókin og ógagn­­­­sæ og því erfitt að tilgreina hversu miklu fé ríkið veitti árlega til þeirra. Eins veitti bókhald háskólanna takmarkaða vitneskju um útgjöld þeirra til þessa verkefnis. Ríkisendurskoðun benti á að betri yfirsýn menntayfirvalda um málaflokk­inn myndi auðvelda þeim stefnu­mótun og for­gangs­röðun í málaflokknum og stuðl­a að auknu aðhaldi, betri nýtingu ríkisfjár og bættum árangri rann­­­sókna. Þá hefði ekki enn ver­ið komið á samræmdu eftirlits- og mats­kerfi rann­sókna sem næði til allra háskóla sem nytu ríkisframlaga. Þetta takmarkaði samanburð á gæðum rannsókna og árangri þeirra.

Í nýrri eftirfyglniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur brugðist með viðunandi hætti við fimm af þeim sex ábendingum sem stofnunin beindi til þess árið 2012. Ein ábending er þó ítrekuð: Ráðuneytið er hvatt til að stuðla að því að opinber rannsóknarframlög til háskóla séu betur skilgreind í fjárlögum en verið hefur. Einnig þurfi að setja sam­ræmdar reglur um það hvernig háskólar skuli meðhöndla slík framlög í bókhaldi sínu.

Sjá nánar