Gerir ekki athugasemd við stjórnsýslu tveggja nefnda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis

Skýrsla til Alþingis

30.04.2015

Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemd við stjórnsýslu verðlagsnefndar búvara og ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Að mati stofnunarinnar hafa nefndirnar unnið í samræmi við þau lagaákvæði sem um störf þeirra gilda. Engu að síður beinir stofnunin nokkrum ábendingum til stjórnvalda vegna starfsemi nefndanna.Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um stjórnsýslu tveggja nefnda sem starfa samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulögum). Verðlagsnefnd búvara hefur það hlutverk að ákveða afurðaverð til búvöru­framleiðenda og verð búvara í heild­sölu. Hún er skipuð full­trúum framleiðenda, af­urða­stöðva og laun­þega. Að auki skipar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra) formann nefndar­innar. Samkvæmt lögum er nefndin skipuð til eins árs í senn, frá 1. júlí til 30. júní. Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi ekki verið skipuð fyrir yfir­standandi tíma­bil. Að mati Ríkisendur­skoð­unar er þetta óheppilegt. Stofnunin hvetur ráðuneytið (ráðherra) til að tryggja að nefndin sé jafnan fullskipuð.
Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara gerir tillögur til ráðherra um úthlutun tollkvóta, verðjöfnunargjöld við inn- og útflutning og beitingu við­bótarkvóta. Í nefndinni sitja þrír fulltrúar skipaðir af þremur ráðherrum. Í skýrslunni kemur fram að fundargerðir nefndarinnar séu ekki birtar opinberlega líkt og fundargerðir verðlagsnefndar búvara. Ríkisendurskoðun hvetur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra) til að beita sér fyrir því að fundargerðir ráðgjafarnefndarinnar verði einnig birtar.

Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemd við stjórnsýslu þessara tveggja nefnda. Að mati stofnunarinnar hafa þær unnið í samræmi við þau lagaákvæði sem lúta að störfum þeirra, m.a. undir­búningi, meðferð og úrlausn mála. Engar vísbendingar eru um að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för í þeim störfum. Í skýrslunni er þó vakin athygli á því að nefndirnar starfi ekki samkvæmt skráðum verklagsreglum. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið (ráðherra) til að beita sér fyrir því að úr þessu verði bætt.

Bent er á að fram hafi komið efa­­semdir um skip­an nefnd­anna og um hæfi for­manns þeirra sem nú er einn og sami maður. Efa­semd­ir um hæfi formanns­ins hafi þó ekki komið frá þeim aðilum sem tilnefna fulltrúa í nefndirnar. Af gögnum málsins verði ekki heldur ráðið að meint hags­muna­tengsl hans hafi haft áhrif á störf nefndanna eða niðurstöður þeirra. Nefndirnar hafa t.d. nær undantekningarlaust komist að sameiginlegri niðurstöðu um ákvarðanir sínar og aldrei hefur reynt á oddaatkvæði formanns. Að mati Ríkis­endur­skoð­unar er engu að síður mikilvægt að óhlutdrægni þeirra sem sitja í nefndum á vegum ríkisins verði ekki dregin í efa með réttu. Stofnunin hvetur ráðuneytið (ráðherra) til að tryggja að hæfi þeirra sem sitja í nefndum á þess vegum sé ávallt hafið yfir allan vafa.

Sjá nánar