Hafa komið til móts við ábendingar um frumgreinakennslu

Skýrsla til Alþingis

04.03.2015

Árið 2012 beindi Ríkisendurskoðun tveimur ábendingum til menntayfirvalda vegna frumgreinakennslu íslenskra skóla. Yfirvöld hafa nú komið til móts við þær.Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fjallað var um frumgreinakennslu íslenskra skóla en hún miðar að því að búa nemendur undir háskólanám. Bent var á að frumgreinanámið væri í eðli sínu á framhaldsskólastigi en að það félli hvorki undir lög um framhaldsskóla né aðalnámskrá þeirra. Aftur á móti byggði það á ákvæðum laga um háskóla um aðfaranám fyrir einstaklinga sem uppfylla ekki inntökuskilyrði háskóla. Þá hefðu menntayfirvöld enga beina aðkomu að náminu þrátt fyrir að ríkið greiddi eða lánaði fyrir nær öllum kostnaði sem af því hlytist.

Í skýrslunni var tveimur ábendingum beint til mennta- og menningarmálaráðuneytis:

  • Lagt var til að frumgreinanámið yrði fellt með skýrum hætti að almennu framhaldsskólanámi. Ríkisendurskoðun taldi nærtækast að fella það undir lög um framhaldsskóla og fela ráðuneytinu ábyrgð á stefnumótun, stuðningi og eftirliti með því.
  • Stæði vilji menntayfirvalda til að viðhalda náminu sem sérstökum valkosti væri mikilvægt að lagaumgjörð þess yrði bætt.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um hvernig ráðuneytið hefur brugðist við þessum ábendingum. Fram kemur að árið 2012 hafi lögum um háskóla verið breytt og ráðherra heimilað að setja reglur um frumgreinanám. Slíkar reglur hafi tekið gildi í árslok 2013. Í þeim sé m.a. kveðið á um að námið skuli skipulagt í samráði við ráðuneytið og skuli byggt á þeim hæfnisþrepum sem lýst er í aðalnámskrá framhaldsskóla.

Ríkisendurskoðun telur að með þessum reglum hafi mennta- og menningarmálaráðuneyti komið til móts við ábendingar stofnunarinnar. Stofnunin vekur engu að síður sérstaka athygli á tveimur álitamálum sem tengjast frumgreinanáminu, annars vegar því að enn hefur ekki verið gerð sjálfstæð og óháð úttekt á náminu og hins vegar því að enn njóta nemendur frumgreinadeilda lánafyrirgreiðslna Lánasjóðs íslenskra námsmanna þótt slíkt fari á svig við lög um sjóðinn.

Sjá nánar