Fóðursjóður lagður niður í kjölfar ábendingar Ríkisendurskoðunar

Skýrsla til Alþingis

18.02.2015

Árið 2012 benti Ríkisendurskoðun á að svonefndur Fóðursjóður væri dæmi um ógagnsæja og óþarfa stjórnsýslu. Leggja ætti sjóðinn niður. Það var gert í kjölfarið.Árið 2012 vakti Ríkisendurskoðun athygli á því að tollar sem innflytjendur dýrafóðurs ættu að greiða samkvæmt lögum væru að stærstum hluta felldir niður áður en til greiðslu þeirra kæmi. Um var að ræða flókið kerfi þar sem reiknaðir tollar voru felldir niður gegn því að innflytjendur framvísuðu skuldaviðurkenningum til Tollstjóra. Tollarnir áttu að renna í svonefndan Fóðursjóð. Ríkisendurskoðun taldi að starfsemi þessa sjóðs væri dæmi um ógagnsæja og óþarfa stjórnsýslu. Beindi stofnunin því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis (nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti) að sjóðurinn yrði lagður niður og fóðurtollar, sem jafnan væru felldir niður áður en til greiðslu þeirra kæmi, yrðu afnumdir.

Í nýrri eftirfyglniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þegar árið 2012 hafi ráðuneytið brugðist við ábendingu Ríkisendurskoðunar með þeim hætti að leggja til breytingar á lögum. Í kjölfarið hafi Alþingi samþykkt frumvarp til breytinga á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem fól í sér að Fóðursjóður var lagður niður. Jafnframt hafi verið gerðar breytingar á tollalögum sem fólu í sér að tollur á fóðurvörum og hráefnum í þær féll niður við innflutning.

Að mati Ríkisendurskoðun hafa stjórnvöld brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingu stofnunarinnar frá 2012. Afskiptum hennar af málinu er því lokið.

Sjá nánar