Ráðuneytið móti heildstæða stefnu í mannauðsmálum

Skýrsla til Alþingis

12.12.2014

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að móta skýra og heildstæða stefnu í mannauðsmálum ríkisins, meta stöðu þessara mála reglulega og efla Kjara- og mannauðssýslu ríkisins.

Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem fjallað var um stefnu stjórnvalda í mannauðsmálum ríkisins og stöðu þeirra mála. Stofnunin beindi nokkrum ábendingum um úrbætur til fjármálaráðuneytis (nú fjármála- og efnahagsráðuneyti) sem í meginatriðum snerust um þrjú atriði. Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Móta skýra og heildstæða stefnu í mannauðsmálum ríkisins
  • Meta stöðu þessara mála reglulega út frá skilgreindum viðmiðum
  • Efla þá skrifstofu ráðuneytisins sem sinnir þessum málaflokki og gera henni kleift að innleiða nútímalega mannauðsstjórnun hjá ríkinu

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að margt hafi áunnist á þessu sviði á undanförnum þremur árum. Ráðuneytið hafi unnið að því að hrinda fyrrnefndum ábendingum í framkvæmd, m.a. með því að setja á fót miðlæga starfseiningu sem veiti ráðuneytum og stofnunum ráðgjöf og stuðning í mannauðsmálum (Kjara- og mannauðssýsla ríkisins). Þá hafi verið skipaður starfshópur til að fjalla um starfsskilyrði og kjör forstöðumanna og unnið að því að endurbæta tölvukerfi sem halda utan um starfsmannamál. Hins vegar hafi ýmsum verkefnum á þessu sviði miðað hægt, m.a. stefnumörkun, öflun og greiningu upplýsinga um mannauðsmál og að innleiða nútímalega kjara- og mannauðsstjórnun hjá ríkinu. Því ítrekar Ríkisendurskoðun ábendingar sínar og hvetur ráðuneytið jafnframt til að setja sér tímamörk vegna verkefnanna. Stofnunin væntir þess að ráðuneytið taki mið af áherslum stjórnvalda í Frumvarpi til fjárlaga 2015 þar sem m.a. kemur fram það markmið að stofnanir ríkisins séu áhugaverðir vinnustaðir sem ástundi bestu aðferðir mannauðsstjórnunar.

Sjá nánar