Ekki talin ástæða til að ítreka ábendingar um þjónustusamninga Barnaverndarstofu

Skýrsla til Alþingis

18.09.2014

Ríkisendurskoðun telur ekki þörf á að ítreka ábendingar sínar frá 2011 um þjónustusamninga Barnaverndarstofu um rekstur meðferðarheimila fyrir börn og unglinga. Stofnunin hvetur Barnaverndarstofu og velferðarráðuneyti engu að síður til að huga stöðugt að faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar um rekstur og rekstrarform slíkra heimila og hvernig raunverulegri þörf barna og unglinga fyrir þjónustu verði sem best mætt hverju sinni. Einnig þurfi þau að vera vakandi fyrir nýtingu heimila og geta gripið til viðeigandi ráðstafana fari hún undir tiltekin mörk.Í febrúar 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um þjónustusamninga Barnaverndarstofu við einkaaðila um rekstur meðferðarheimila fyrir börn og unglinga með alvarleg hegðunarvandamál. Í skýrslunni kom fram að á árunum 1996‒2010 hefði Barnaverndarstofa alls átta sinnum átt frumkvæði að því að slíta þjónustusamningi við meðferðarheimili áður en gildistími hans rann út. Ástæðurnar hefðu einkum verið dvínandi eftirspurn eftir þjónustu heimilanna en einnig hefði verið vísað til trúnaðarbrests og vanefnda rekstraraðila. Í nokkrum tilvikum hefði Barnaverndarstofa greitt heimilum sérstaklega vegna skerts vinnuframlags á uppsagnartíma og keypt stofnbúnað af þeim. Um slíkt hefðu þó hvorki verið tilteknar reglur né ákvæði í þjónustusamningum og gerði Ríkisendurskoðun athugasemd við það. Í þrjú skipti hefði að auki verið samið við rekstraraðila um nokkurs konar lokauppgjör. Slík uppgjör hefðu verið rökstudd með mismunandi hætti en að mati Ríkisendurskoðunar orkuðu þau tvímælis, enda virtust heimilin ekki hafa átt lögvarða kröfu til þeirra. Sérstaklega þótti eitt lokauppgjör skera sig úr vegna þess að bótafjárhæðin byggði fremur á samkomulagi en eiginlegum reikningsskilum.

Í skýrslunni beindi Ríkisendurskoðun samtals átta ábendingum til velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu.

Ráðuneytið var hvatt til að:

  • Taka afstöðu til þess hvort tími einkarekinna meðferðarheimila fyrir börn og unglinga væri hugsanlega liðinn vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu og nýrra meðferðarúrræða, m.a. svokallaðrar fjölkerfameðferðar sem leggur áherslu á að börn og fjölskyldur séu aðstoðuð á heimilum sínum
  • Tryggja að mögulegar greiðslur til einkarekinna meðferðarheimila vegna samningsslita væru ávallt gagnsæjar, málefnalegar, byggðar á skráðum reglum, samningum og raunverulegu uppgjöri
  • Ganga jafnan úr skugga um að uppsögn þjónustusamnings væri lögmæt áður en til hennar kæmi til að fyrirbyggja ágreining, en dæmi voru um að lögmæti uppsagnar hefði verið dregið í efa
  • Efla ytra eftirlit með þjónustu Barnaverndarstofu og framkvæmd samninga hennar um meðferðarheimili fyrir börn og unglinga

Barnaverndarstofa var hvött til að:

  • Tryggja að mögulegar greiðslur til einkarekinna meðferðarheimila vegna samningsslita væru ávallt gagnsæjar, málefnalegar, byggðar á skráðum reglum, samningum og raunverulegu uppgjöri
  • Setja skýrt viðmið um nýtingarhlutfall meðferðarheimila fyrir börn og unglinga, þ.e. hversu lágt nýtingarhlutfallið mætti fara og í hve langan tíma það mætti vara áður en hugað yrði að uppsögn þjónustusamnings vegna ónógrar nýtingar og dvínandi eftirspurnar
  • Setja skýrt viðmið um fagmenntun meðferðaraðila, en starfsfólk einkareknu meðferðarheimilanna var á þessum tíma yfirleitt ófaglært
  • Tryggja að Ríkisendurskoðun bærust ávallt áritaðir ársreikningar einkarekinna meðferðarheimila, en misbrestur hafði verið á því

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar er gerð grein fyrir viðbrögðum velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu við þessum ábendingum, sérstaklega vegna þriggja ábendinga. Fram kemur að velferðarráðuneyti telji enn nauðsynlegt að einkarekin meðferðarheimili séu starfrækt í einhverjum mæli. Sömuleiðis hafi það beint þeim tilmælum til Barnaverndarstofu að gera nýjan samning við heimilið í Háholti í Skagafirði sem einnig fái það hlutverk að vista unglinga sem hlotið hafa óskilorðsbundinn dóm. Þá hafi ráðuneytið beint þeim tilmælum til Barnaverndarstofu að ekki skuli kveða á um lágmarksnýtingu heimila í einstökum samningum. Barnaverndarstofa telji sér ekki annað fært en að hlíta þeim tilmælum, m.a. hvað varðar samning við heimilið í Háholti. Stofan hafi hins vegar ákveðið að gera auknar kröfur um menntun og þjálfun starfsmanna meðferðarheimila. Vegna þessara og annarra viðbragða telur Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að ítreka ábendingar sínar frá 2011.

Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið engu að síður til að huga stöðugt að faglegum og fjárhagslegum sjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar um rekstur og rekstrarform meðferðarheimila og hvernig raunverulegri þörf barna og unglinga fyrir þjónustu verði sem best mætt hverju sinni. Í þessu sambandi bendir stofnunin m.a. á að umsóknum um dvöl á langtímameðferðarheimilum fyrir þennan hóp hefur fækkað verulega á síðustu árum og að sum heimilanna séu því illa nýtt. Mikilvægt sé að  Barnaverndarstofa og ráðuneytið séu jafnan vakandi fyrir þessari þróun og að þeim sé unnt að grípa til viðeigandi ráðstafana fari nýting heimila undir tiltekin mörk sem þá þurfa að vera skýr.

Ríkisendurskoðun lítur svo á að aðkomu stofnunarinnar að þeim þáttum í starfsemi Barnaverndarstofu sem gerðir voru að umtalsefni í skýrslu hennar árið 2011 sé lokið.

Sjá nánar