Fjárveiting til Raunvísindastofnunar verði færð undir HÍ og stjórnskipulag hennar einfaldað

Skýrsla til Alþingis

02.06.2014

Ríkisendurskoðun hvetur fjármála- og efnahagsráðuneyti til að færa fjárveitingu til Raunvísindastofnunar undir Háskóla Íslands, þótt hún verði hugsanlega áfram eyrnamerkt stofnuninni. Þá hvetur Ríkisendurskoðun háskólann til að beita sér fyrir því að stjórnskipulag Raunvísindastofnunar verði einfaldað.Árið 2011 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um stjórnun og rekstur Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem samtals sex ábendingum var beint til stofnunarinnar, háskólans og  mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

  • Ráðuneytið var hvatt til þess að virða forræði háskólans yfir Raunvísindastofnun og kanna hvort rétt væri að færa fjárveitingu til hennar undir skólann.
  • Háskóli Íslands var hvattur til að hafa virk afskipti af starfsemi Raunvísindastofnunar og endurskoða aðkomu stoðsviða skólans að starfsemi stofnunarinnar.
  • Háskóli Íslands var hvattur til að beita sér fyrir því, í samráði við Raunvísindastofnun, að endurskoðun reglna um stofnunina yrði lokið og stjórnskipulag hennar einfaldað. Yfir Raunvísindastofnun var stjórn auk þess sem tvær undirstofnanir hennar höfðu hvor um sig sérstaka stjórn. Ríkisendurskoðun taldi að stofnunin ætti einungis að hafa eina stjórn.
  • Raunvísindastofnun var hvött til að koma á skýru verklagi m.a. með skriflegum verklagsreglum fyrir meginferla starfseminnar.
  • Raunvísindastofnun var hvött til að bæta umsýslu sína með styrkjum og rannsóknarstarfsemi.
  • Raunvísindastofnun var hvött til að haga rekstri sínum innan fjárheimilda og vinna á uppsöfnuðum halla.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú þremur árum síðar hefur Raunvísindastofnun brugðist þannig við þeim ábendingum sem beindust að henni að ekki er talin ástæða til að ítreka þær. Einnig hefur Háskóli Íslands brugðist við fyrri ábendingunni sem beindist að honum á þann hátt að ekki er talin þörf á að ítreka hana. Hins vegar hefur stjórnskipulag Raunvísindastofnunar ekki verið einfaldað og ítrekar Ríkisendurskoðun því þann hluta seinni ábendingarinnar sem laut að því.

Fram kemur að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi í tengslum við fjárlagavinnu ársins 2012 farið fram á það við fjármála- og efnahagsráðuneytið að fjárveiting til Raunvísindastofnunar yrði færð undir Háskóla Íslands. Þeirri beiðni hafi verið hafnað. Ríkisendurskoðun telur að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi fyrir sitt leyti brugðist við ábendingu um þetta atriði í skýrslunni frá 2011. Hins vegar hvetur Ríkisendurskoðun nú fjármála- og efnahagsráðuneytið til að færa fjárveitingu til Raunvísindastofnunar undir háskólann, þótt hún verði hugsanlega áfram eyrnamerkt stofnuninni.

Sjá nánar