Velferðarráðuneytið láti rannsaka tannheilsu barna

Skýrsla til Alþingis

11.04.2014

Árið 2011 ákváðu stjórnvöld að bjóða börnum frá efnaminni heimilum landsins tímabundið upp á ókeypis tannlæknisþjónustu. Forráðamenn barnanna þurftu að sækja sérstaklega um þjónustuna til Tryggingastofnunar ríkisins. Fyrirfram var talið að þörfin fyrir þessa þjónustu væri mikil en umsóknir urðu þó mun færri en búist var við. Hins vegar skilaði þjónustan þeim börnum sem nutu hennar verulegum ábata. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðneytið til að láta rannsaka tannheilsu barna hér á landi og beita sér fyrir því að fleiri börn verði skráð hjá heimilistannlæknum en nú eru.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um átaksverkefni stjórnvalda árið 2011 til að bæta tannheilsu barna tekjulágra foreldra. Ástæða verkefnisins var m.a. sú að vísbendingar höfðu komið fram um að tannheilsa þessa hóps væri mjög bágborin. Á þessum tíma greiddu foreldrar að jafnaði um helming af kostnaði við tannlækningar barna sinna þar sem gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands hafði ekki fylgt hækkun á gjaldskrám tannlækna. Ekki voru í gildi samningar milli ríkisins og tannlækna og höfðu ekki verið frá árinu 1998.

Verkefnið fólst í því að bjóða börnum forráðamanna með tekjur undir tilteknum mörkum upp á ókeypis tannlæknisþjónustu. Sækja þurfti sérstaklega um hana til Tryggingastofnunar ríkisins. Í skýrslunni kemur fram að ætla megi að fjöldi barna sem uppfylltu skilyrðin hafi verið um 8.800. Hins vegar bárust aðeins umsóknir vegna 1.335 barna og þar af voru 1.078 samþykktar. Ríkisendurskoðun hefur ekki fengið skýringar á þessari dræmu þátttöku en vísbendingar eru um að vel hafi verið staðið að kynningu á verkefninu. Það var m.a. kynnt í fjölmiðlum, innan skólakerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá voru upplýsingar um verkefnið þýddar á sjö erlend tungumál. Upphaflega átti að verja 150 milljónum króna til verkefnisins en raunkostnaður varð 46 milljónir króna.

Tæplega þriðjungur samþykktra þátttakenda nýtti sér ekki þjónustuna þannig að þegar upp var staðið náði hún aðeins til 740 barna. Fram kemur í skýrslunni að ástæður þessa liggi ekki fyrir. Hins vegar kemur fram að verkefnið hafi bætt verulega tannheilsu þeirra barna sem nutu þjónustunnar. Samkvæmt rannsókn Tannlæknadeildar Háskóla Íslands var tannheilsa um fjórðungs þeirra afar slæm áður en þau komu til meðferðar.

Í apríl 2013 undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands og Tannlæknafélag Íslands samning um tannlækningar barna þar sem kveðið er á um að ríkið greiði kostnað þeirra að fullu. Forsenda þess er þó að börnin séu skráð hjá heimilistannlækni. Ráðgert er að þetta nýja fyrirkomulag muni koma til framkvæmda í áföngum til ársins 2018. Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að láta rannsaka tannheilsu barna hér á landi, m.a. til að geta síðar metið árangur af nýja fyrirkomulaginu (heimilistannlækningum). Rannsókn á tannheilsu íslenskra barna var síðast gerð árið 2005.

Í mars sl. voru um 64% barna sem nú falla undir ákvæði samningsins um heimilistannlækna skráð hjá slíkum lækni. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að beita sér fyrir því að skráningum barna hjá heimilistannlæknum fjölgi og að þau mæti reglulega til þeirra. Meðal annars þarf að efla kynningu á fyrirkomulaginu og greiðsluþátttöku ríkisins.

Sjá nánar