Komin vel á veg með að innleiða alþjóðlega staðla

Almennt

17.01.2014

Teymi sérfræðinga frá þremur löndum telur að Ríkisendurskoðun sé að vinna gott starf á sviði fjárhagsendurskoðunar og sé komin vel á veg með að innleiða alþjóðlega staðla (ISSAI). Algengt er að stofnanir á borð við Ríkisendurskoðun fái systurstofnanir í öðrum löndum til að taka út starfsemi sína í heild eða tiltekna þætti hennar. Markmið slíkra „jafningjaúttekta“ er að meta verklag og vinnubrögð og benda á leiðir til að bæta þessa þætti. Jafningjaúttektir eru þannig liður í innra gæðastarfi stofnananna.

Sumarið 2011 fór ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, þess á leit við ríkisendurskoðanda Hollands, Saskia Stuiveling, að stofnun hennar (Algemene Rekenkamer) tæki að sér að leiða alþjóðlega jafningjaúttekt á Ríkisendurskoðun. Auk hollensku ríkisendurskoðunarinnar tóku ríkisendurskoðanir Noregs og Svíþjóðar þátt í úttektinni. Ákveðið var að skipta úttektinni í tvo sjálfstæða áfanga og skyldi hinn fyrri beinast að vinnubrögðum stofnunarinnar við stjórnsýsluendurskoðun en hinn síðari að vinnubrögðum hennar við fjárhagsendurskoðun.

Vinnu við fyrri áfanga jafningjaúttektarinnar lauk árið 2012 (vinnubrögð við stjórnsýsluendurskoðun) og var skýrsla birt í desember það ár. Á síðasta ári hófst vinna við síðari áfanga úttektarinnar (vinnubrögð við fjárhagsendurskoðun) sem var í höndum fimm sérfræðinga frá ríkisendurskoðunum Hollands, Noregs og Svíþjóðar. Þeirri vinnu er nú lokið en hún fólst einkum í að kanna vinnubrögð stofnunarinnar við fimm valin endurskoðunarverkefni sem unnin voru á árinu 2013. Sérfræðingarnir völdu verkefnin sjálfir eftir að hafa kynnt sér starfshætti stofnunarinnar á sviði fjárhagsendurskoðunar. Markmiðið var að kanna gæði fjárhagsendurskoðunar hjá stofnuninni og að hvaða marki hún samræmdist stöðlum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (International Standards of Supreme Audit Institutions – ISSAI). Þá var sjónum sérstaklega beint að áhættugreiningu stofnunarinnar við val á endurskoðunarverkefnum.

Í skýrslu sérfræðinganna kemur fram að Ríkisendurskoðun sé að vinna gott starf á sviði fjárhagsendurskoðunar og sé langt á veg komin með að innleiða ISSAI-staðlana. Settar eru fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem munu nýtast við að ljúka innleiðingunni. Þær lúta m.a. að verkefnasviði stofnunarinnar, endurskoðunarkerfum, skjölun, áhættugreiningu, gæðaeftirliti, skýrslugerð o.fl. Stofnunin mun taka þessar ábendingar til vandlegrar skoðunar og umræðu.