Greiðsluhallinn tæpir 30 milljarðar á fyrstu níu mánuðum ársins

Skýrsla til Alþingis

20.12.2013

Innheimtar tekjur ríkissjóðs voru 29,6 milljörðum króna lægri en greidd gjöld á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Ríkisendurskoðun bendir á að ráðuneytin þurfi að bregðast við með fullnægjandi hætti þegar sýnt þykir að forstöðumenn nái ekki að halda rekstri stofnana innan fjárheimilda.Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu níu mánuði ársins 2013 kemur fram að innheimtar tekjur ríkissjóðs námu samtals 382,8 milljörðum króna á tímabilinu en greidd gjöld samtals 412,5 milljörðum króna. Greiðsluhallinn nam því 29,6 milljörðum króna. Hugtakið greiðsluhalli horfir til innheimtra tekna og greiddra gjalda á tilteknu tímabili. Hugtökin rekstarhalli/afgangur vísa hins vegar til allra áfallinna tekna og gjalda, hvort sem þau hafa komið til innheimtu/greiðslu eður ei. Ekki eru unnin eiginleg rekstraruppgjör fyrir ríkissjóð innan ársins en slík uppgjör gefa fyllri mynd af fjárhagsstöðu hans en greiðsluuppgjör. Í greiðsluuppgjörum ríkissjóðs er t.a.m. ekki horft til áfallinna lífeyrisskuldbindinga, fjármagnskostnaðar, afskrifta skattkrafna o.s.frv.

Í skýrslunni kemur fram að greiðsluhallinn stefni í að verða meira en 30 milljarðar króna á árinu öllu. Í fjárlögum var hins vegar gert ráð fyrir 21 milljóna króna greiðsluhalla. Þá segir að útlit sé fyrir að tekjur ríkissjóðs á árinu verði um 14 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Ástæðurnar séu m.a. þær að efnahagsforsendur fjárlaga hafi ekki þróast með þeim hætti sem reiknað var með auk þess sem ákvarðanir hafi verið teknar á árinu sem hafi falið í sér skertar tekjur miðað við fjárlög. Á hinn bóginn sé útlit fyrir að gjöldin verði allt að 4,9 milljörðum króna lægri en samkvæmt fjárlögum.

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru gjöld 40% fjárlagaliða umfram áætlun en gjöld 60% liða undir áætlun. Ríkisendurskoðun bendir á að ráðuneytin þurfi að bregðast við með fullnægjandi hætti þegar sýnt þykir að forstöðumenn stofnana nái ekki að halda rekstri þeirra innan fjárheimilda. Nokkur dæmi séu um stofnanir sem ítrekað hafi farið fram úr fjárheimildum og safnað upp halla sem ekki verði séð hvernig rétta eigi af. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að bæta þurfi áætlanagerð fjárlaga vegna ýmissa liða, m.a. liða með lög- eða samningsbundnum útgjöldum sem ekki verður breytt með skömmum fyrirvara. Loks telur Ríkisendurskoðun ekki eðlilegt að forstöðumenn stofni til útgjalda á grundvelli vilyrða ráðherra eða þingmanna um auknar fjárveitingar. Forstöðumönnum beri skylda til að haga rekstri í samræmi við gildandi fjárheimildir megi ekki auka útgjöld fyrr en Alþingi hafi samþykkt auknar fjárveitingar.

Sjá nánar