Athugasemd vegna greinar „áhugamanna um velferð Skálholtsstaðar“

Almennt

11.11.2013

Vegna greinar hóps sem kallar sig „áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar“ í Morgunblaðinu 9. nóvember sl., vill Ríkisendurskoðun koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Í greininni er varpað fram ýmsum spurningum um eftirlit Ríkisendurskoðunar með ráðstöfun Þorláksbúðarfélagsins á styrkjum sem það hefur fengið úr ríkissjóði í tengslum við byggingu tilgátuhúss í Skálholti. Nokkurs misskilnings gætir um aðkomu Ríkisendurskoðunar að málinu sem rétt og skylt er að leiðrétta. Ríkisendurskoðun er hins vegar sammála „áhugamönnum um velferð Skálholtsstaðar“ um að ekki megi hvíla neinn leyndarhjúpur yfir því hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað.

Samkvæmt 7. gr. laga um Ríkisendurskoðun getur stofnunin krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu. Þessi skoðunarheimild hefur verið túlkuð á þann veg að hún nái fyrst og fremst til ársreikninga viðkomandi aðila en ekki til bókhalds þeirra. Þá getur stofnunin samkvæmt 9. gr. laganna kallað eftir greinargerðum um ráðstöfun styrkja og annarra framlaga af ríkisfé og metið hvort þau hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt. Rétt er að benda á að þar sem Þorláksbúðarfélagið er einkaréttarlegur aðili hefur Ríkisendurskoðun ekki sambærilegar skoðunarheimildir gagnvart því og stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins. Til að mynda hefur Ríkisendurskoðun ekki heimild til að endurskoða ársreikninga félagsins.

Á tímabilinu 2008–2011 fékk Þorláksbúðarfélagið samtals 9,4 milljónir króna úr ríkissjóði og 3 milljónir króna frá kirkjuráði. Í samræmi við framangreind lagaákvæði kannaði Ríkisendurskoðun á síðasta ári ársreikninga Þorláksbúðarfélagsins fyrir tímabilið. Að auki veittu forsvarsmenn félagsins stofnuninni aðgang að bókhaldi þess þótt þeim væri það ekki skylt. Ríkisendurskoðun kannaði færslur í bókhaldinu og yfirfór öll fylgiskjöl og bankareikninga. Könnunin gaf ekki tilefni til athugasemda. Þessi niðurstaða var kynnt forseta Alþingis með bréfi í júní á síðasta ári sem jafnframt var birt á heimasíðu stofnunarinnar. Þótt ekki væru gerðar athugasemdir við ráðstöfun félagsins á opinberum styrkjum benti Ríkisendurskoðun á að óvissa ríkti um fjárhagsstöðu félagsins enda hefðu því ekki borist reikningar vegna allrar aðkeyptrar vinnu.

Ríkisendurskoðun hefur ítrekað óskað eftir því við forsvarsmenn Þorláksbúðarfélagsins að fá afhentan ársreikning þess fyrir árið 2012, bæði munnlega og skriflega. Forsvarsmenn félagsins hafa gefið vilyrði sitt fyrir því að afhenda ársreikninginn þegar hann verður tilbúinn.
Í mars sl. hvatti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis Ríkisendurskoðun til að „ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið.“ Í þessu sambandi vill Ríkisendurskoðun taka fram að um leið og ársreikningur félagsins fyrir árið 2012 hefur borist stofnuninni og hefur verið yfirfarinn, ásamt eftir atvikum öðrum gögnum og upplýsingum, mun stofnunin gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd grein fyrir niðurstöðum þeirrar athugunar.

Loks má geta þess að „áhugamenn um velferð Skáholtsstaðar“ leituðu ekki til Ríkisendurskoðunar áður en umrædd grein eftir þá birtist. Að mati stofnunarinnar er þetta miður enda hefði hún fúslega veitt greinarhöfundum upplýsingar um aðkomu sína að málinu hefðu þeir óskað þess.