Ferli úttektar á háskólakennslu endanlega lokið

Skýrsla til Alþingis

22.10.2013

Ríkisendurskoðun hefur lokið endanlega ferli úttektar á kostnaði, skilvirkni og gæðum háskólakennslu sem hófst fyrir sjö árum. Stofnunin telur að yfirvöld menntamála og þeir háskólar sem úttektin náði til hafi brugðist við öllum ábendingum sem beint var til þeirra með þeim hætti að ekki sé þörf á að ítreka þær. Í einu tilviki hefur stofnunin þó fallið frá ábendingu sinni. Árið 2006 hófst Ríkisendurskoðun handa við úttekt á nokkrum þáttum sem lutu að háskólakennslu í viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði hér á landi. Úttektin náði til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri á tímabilinu 2003–2005. Í fyrsta lagi var sjónum beint að kostnaði skólanna vegna kennslunnar, í öðru lagi akademískri stöðu þeirra deilda eða skora sem sinntu henni og í þriðja lagi skilvirkni kennslunnar. Þá voru viðskiptafræðideildir skólanna að hluta til bornar saman við viðskiptafræðideildir fjögurra erlendra háskóla. Loks var leitast við að bera saman viðhorf nemenda í viðskiptafræði til kennslunnar eftir skólum og afdrif brautskráðra nemenda í þessari grein.

Í skýrslu úttektarinnar, sem birt var í júní 2007, beindi Ríkisendurskoðun samtals átta ábendingum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og einni til tveimur ábendingum til skólanna fjögurra. Ábendingar til ráðuneytisins lutu m.a. að stefnumótun um málefni háskóla, kröfum sem gerðar eru til skólanna, leiðum til að auka skilvirkni kennslu og fleiri þáttum. Ábendingar til skólanna lutu einkum að ráðstöfunum til að hamla gegn brottfalli.

Ríkisendurskoðun fylgir hverri stjórnsýsluúttekt sinni eftir með sjálfstæðri athugun á því hvort og þá hvernig brugðist hafi verið við ábendingum hennar. Slík eftirfylgni fer alla jafna fram um það bil þremur árum eftir útgáfu skýrslu. Í samræmi við þetta kannaði stofnunin árið 2010 hvernig brugðist hafði verið við ábendingum fyrrnefndrar skýrslu um háskólakennslu. Sú athugun leiddi til þess að stofnunin ítrekaði sjö ábendingar til ráðuneytisins og bætti við einni nýrri. Á hinn bóginn var talið að skólarnir hefðu brugðist með jákvæðum hætti við þeim ábendingum sem beint var til þeirra.

Nú þremur árum síðar telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytið hafi brugðist við öllum þeim ábendingum sem beint var til þess árið 2010 með þeim hætti að ekki sé þörf á að ítreka þær. Í einu tilviki hefur stofnunin þó fallið frá ábendingu sinni. Þar var vakin athygli á því að skipting háskólanema eftir fræðasviðum væri önnur hér á landi en í nágrannalöndunum. Hlutfallslega mun fleiri nemendur legðu stund á félagsvísindi hér en þar. Því voru stjórnvöld hvött til að leitast við að stýra betur fjölda nemenda í hverri grein með hliðsjón af þörf atvinnulífsins fyrir menntað vinnuafl. Í kjölfar endurtekinna viðbragða mennta- og menningarmálaráðuneytisins við þessari ábendingu hefur Ríkisendurskoðun ákveðið að falla frá henni. Engu að síður telur stofnunin eðlilegt að stjórnvöld taki afstöðu til nemendafjölda í einstökum greinum.

Þar með er endanlega lokið ferli úttektar Ríkisendurskoðunar á kostnaði, skilvirkni og gæðum háskólakennslu. Stofnunin lítur svo á að aðkomu hennar að umræddum þáttum í starfsemi íslenskra háskóla sé lokið að sinni en útilokar ekki að beina sjónum sínum að þeim eða öðrum þáttum starfseminnar síðar.

Sjá nánar