Framlög til æskulýðsmála

Skýrsla til Alþingis

20.03.2013

Ríkisendurskoðun hefur birt úttekt á framlögum ríkisins til æskulýðsmála sem unnin var að beiðni forsætisnefndar Alþingis. Í henni kemur fram að ríkið hafi um langt árabil veitt fjárframlög til æskulýðsstarfsemi af ýmsu tagi. Framlög til slíkra mála námu samtals 1,7 ma.kr. á árunum 2001‒2010 sem á verðlagi ársins 2011 svara til 2,2 ma.kr. eða að meðaltali 225 m.kr. á ári.Meiri hluti framlaganna rennur til stærstu og elstu æskulýðssamtaka landsins, þ.e. Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og KFUM og KFUK á Íslandi. Ýmsir aðrir aðilar sem starfa að æskulýðsmálum hafa fengið styrki frá ríkinu til margvíslegra verkefna í lengri eða skemmri tíma. Undanfarin ár hafa framlög til málaflokksins verið skert vegna sparnaðar í ríkisrekstri en þau höfðu vaxið nokkuð hratt fram að því.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar er m.a. gerð grein fyrir þátttöku ungmenna í starfi stærstu æskulýðssamtaka, möguleikum þeirra til að hafa áhrif á stjórnun þeirra og mati viðkomandi samtaka á árangri starfseminnar. Ríkisendurskoðun telur að verklag stjórnvalda við úthlutun styrkja, þ.m.t. til æskulýðsmála, hafi almennt batnað á síðustu árum. Styrkjum er úthlutað samkvæmt faglegu mati umsókna og skilyrði eru sett m.a. um ráðstöfun styrkja og upplýsingagjöf vegna þeirra.

Ríkisendurskoðun telur æskilegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið geri samninga við helstu æskulýðssamtök landsins þannig að skýrari umgjörð verði um framlög ríkisins til þeirra. Í slíkum samningum yrði m.a. kveðið á um kröfur sem slíkir aðilar þurfa að uppfylla, upplýsingagjöf um ráðstöfum framlaganna, fjárhagsramma, eftirlit, árangursmat og fleiri atriði sem talin eru skipta máli. Fram hefur komið að ráðuneytið hafi þegar hafið vinnu við undirbúning að slíkum samningum. Þá bendir Ríkisendurskoðun á að í samningum og skilmálum um styrkveitingar til æskulýðssamtaka ætti að kveða á um að gefnar séu viðeigandi og samræmdar upplýsingar um fjárhag og starfsemi, svo sem um staðfestan félagafjölda aðildarfélaga og þátttöku félagsmanna í verkefnum á þeirra vegum. Mögulegt ætti að vera að sundurliða upplýsingar eftir aldri, kyni og búsetu þátttakenda. Þá ætti að vera mögulegt að bera saman ráðstöfum fjár á milli samtaka, s.s. um hversu stór hluti framlaga fari í að standa undir stjórnun- og skrifstofuhaldi og hversu stór hluti renni til einstakra skilgreindra verkefna.

Sjá nánar