Hafa brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Skýrsla til Alþingis

04.03.2013

Þrír opinberir atvinnuþróunarsjóðir hafa brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum sem Ríkisendurskoðun beindi til þeirra árið 2010.

Seint á árinu 2010 beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til þriggja opinberra atvinnuþróunarsjóða: Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, AVS rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi og Vaxtarsamnings Norðurlands vestra. Ábendingarnar vörðuðu verklagsreglur sjóðanna við úthlutun styrkja og eftirfylgni þeirra með framvindu styrktra verkefna. Í fyrsta lagi lagði Ríkisendurskoðun til að reglum sjóðanna yrði breytt á þann veg að styrkumsækjendum yrði gert að greina frá öðrum styrkjum sem þeir þægju eða hefðu þegið frá opinberum sjóðum vegna sama verkefnis. Í öðru lagi var lagt til að sjóðirnir kölluðu eftir staðfestingu samstarfsaðila umsækjenda á þátttöku þeirra og loks að sjóðirnir krefðust endurgreiðslu styrkja yrði verulegur óútskýrður dráttur á framvindu verkefna.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú rúmlega tveimur árum síðar hafa allir sjóðirnir þrír brugðist við þessum ábendingum með fullnægjandi hætti. Ekki gerist því þörf að ítreka þær. Stofnunin tekur þó fram að ábendingarnar lúti aðeins að afmörkuðum þætti í starfsemi sjóðanna. Þannig hafi úttekt stofnunarinnar t.d. ekki náð til þeirra krafna sem styrkumsækjendur þurfi að uppfylla til að hljóta fjárframlög, mats sjóðanna á umsóknum, eftirlits þeirra með gæðum styrktra rannsókna o.s.frv. Að mati Ríkisendurskoðunar er eðlilegt að allir opinberir sjóðir sem veita styrki til atvinnuþróunar hér á landi fylgi sömu eða sambærilegum reglum til að tryggja jafnræði umsækjenda, gagnsæi í úthlutunum styrkja og að þeir fjármunir sem ríkið felur sjóðunum séu nýttir eins vel og kostur er.

Sjá nánar