Áætlun um stjórnsýsluúttektir 2013–2015

Almennt

19.12.2012

Ríkisendurskoðun mun á næstu árum vinna fjölbreyttar stjórnsýsluúttektir og birta niðurstöður þeirra í áreiðanlegum, hlutlægum og aðgengilegum skýrslum. Á árinu 2013 er m.a. fyrirhugað að gera úttektir á árangri af mótvægisaðgerðum stjórnvalda 2008–10 vegna samdráttar í þorskveiðum, ávinningi af aukinni samvinnu stofnana sem sinna færniskertum einstaklingum, alþjóðasamningi um varnir gegn mengun frá skipum, Þjóðskrá og Matvælastofnun.Stjórnsýsluendurskoðun felst í því að kanna meðferð og nýtingu almannafjár, hvort starfsemi ríkisins sé hagkvæm og skilvirk og skili þeim árangri sem að er stefnt. Markmiðið er að stuðla að umbótum í opinberum rekstri. Skýrslur stjórnsýsluúttekta eiga m.a. að nýtast Alþingi við eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu.

Í starfsáætlun stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar fyrir tímabilið 2013–15 er varpað ljósi á eðli og inntak stjórnsýsluúttekta, hvernig að þeim er staðið og greint frá áherslum í starfseminni á tímabilinu. Áætlunin byggist m.a. á mati á áhættu í starfsemi og rekstri ríkisins, þ.e. hvar hætta er talin á að starfsemin sé ekki eins hagkvæm, skilvirk og árangursrík og til er ætlast. Við vinnslu áætlunarinnar var einkum litið til þeirra breytinga sem orðið hafa í ríkisrekstrinum síðastliðin ár, áherslu stjórnvalda í ríkisfjármálum, fjárveitinga í fjárlögum, ríkisreiknings 2011, niðurstöðu starfsmannakönnunar SFR á árinu 2012 og greiningar á fjárhagsstöðu einstakra fjárlagaliða. Úttektir munu, líkt og síðustu ár, aðallega beinast að málaflokkum sem heyra undir stærstu og útgjaldafrekustu ráðuneytin: velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Lögð verður áhersla á að greina Alþingi frá niðurstöðum úttekta í áreiðanlegum, heildstæðum, hlutlægum, vel uppbyggðum og aðgengilegum skýrslum. Á næsta ári er m.a. fyrirhugað að gera úttektir á:

  • Mótvægisaðgerðum stjórnvalda 2008–10 vegna samdráttar í þorskveiðum
  • Afdrifum verkefna Varnarmálastofnunar
  • Stofnunum sem sinna færniskertum einstaklingum
  • Matvælastofnun
  • Húsnæðismálum ríkisins
  • Þjóðskrá
  • Alþjóðasamningi um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL)
  • Uppfærslu fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins (Orra) árið 2010
  • Samningamálum ríkisins
  • Hvernig ábendingum í stjórnsýsluúttektum ársins 2010 hefur reitt af

Á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar starfa nú 10 manns, fjórir karlar og sex konur. Sviðið hefur birt samtals 25 úttektir á árinu 2012. Sviðsstjóri er Kristín Kalmansdóttir viðskiptafræðingur. Nýlega komst alþjóðlegt teymi sérfræðinga að þeirri niðurstöðu að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við stjórnsýsluendurskoðun séu í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og að skilvirkt og metnaðarfullt starf sé unnið á stjórnsýslusviði stofnunarinnar.