Vinnubrögðin í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla

Almennt

17.12.2012

Teymi sérfræðinga frá þremur löndum telur að vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við stjórnsýsluendurskoðun séu í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla. Afköst stjórnsýslusviðs stofnunarinnar séu mikil og starfsemi þess einkennist af krafti, metnaði og umbótavilja. Skýrslur stofnunarinnar séu læsilegar og skili stjórnsýslunni og Alþingi ávinningi.Algengt er að stofnanir á borð við Ríkisendurskoðun fái systurstofnanir í öðrum löndum til að taka út starfsemi sína í heild eða tiltekna þætti hennar. Markmið slíkra „jafningjaúttekta“ er að meta verklag og vinnubrögð og benda á leiðir til að bæta þessa þætti. Jafningjaúttektir eru þannig liður í innra gæðastarfi stofnananna.

Sumarið 2011 fór ríkisendurskoðandi, Sveinn Arason, þess á leit við ríkisendurskoðanda Hollands, Saskia Stuiveling, að stofnun hennar (Algemene Rekenkamer) tæki að sér að leiða alþjóðlega jafningjaúttekt á Ríkisendurskoðun. Ákveðið var að skipta úttektinni í tvo sjálfstæða áfanga og skyldi hinn fyrri beinast að vinnubrögðum stofnunarninar við stjórnsýsluendurskoðun en hinn síðari að vinnubrögðum hennar við fjárhagsendurskoðun.

Fimm sérfræðingar frá ríkisendurskoðunum Hollands, Noregs og Svíþjóðar hafa nú lokið fyrri áfanga jafningjúttektarinnar. Vinna vegna hans fór að mestu fram á fyrri hluta þessa árs og fólst í að kanna vinnubrögð að baki átta skýrslum sem gefnar voru út árið 2011. Sérfræðingarnir völdu þær sjálfir úr samtals 27 skýrslum stjórnsýsluúttekta sem gefnar voru út það ár. Í skýrslu sérfræðinganna kemur fram að Ríkisendurskoðun hafi með margvíslegum umbótum á undanförnum árum tileinkað sér fagleg vinnubrögð sem samrýmast stöðlum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (INTOSAI). Afköst stjórnsýslusviðs stofnunarinnar séu mikil og starfsemi þess einkennist af krafti, metnaði og umbótavilja. Skýrslur stofnunarinnar séu aðgengilegar og læsilegar og skili bæði stjórnsýslunni og Alþingi ávinningi. Um leið benda sérfræðingarnir á nokkur atriði sem gætu stuðlað að því að gera kröftugt starf enn öflugra. Ábendingarnar lúta m.a. að stefnumótun um stjórnsýsluúttektir og hönnun þeirra og hefur stofnunin nú þegar hrint ýmsum þeirra í framkvæmd.

Stefnt er að því að síðari áfangi jafningjaúttektarinnar (úttekt á vinnubrögðum við fjárhagsendurskoðun) verði unninn á árinu 2013.