Samningur við Farice um óljós fjárframlög

Skýrsla til Alþingis

19.11.2012

Á árunum 2002‒11 veitti ríkissjóður Farice ehf., sem á og rekur sæstrengi milli Íslands og Evrópu, og forverum þess félags alls 4,2 milljarða króna framlög með ýmsum hætti. Jafnframt veitti hann þeim rúmlega 7 milljarða króna ábyrgðir vegna lántöku þeirra. Útlit er fyrir að ríkissjóður muni þurfa að taka á sig enn meiri skuldbindingar vegna þjónustusamnings við Farice en áætlað var við gerð hans fyrr á þessu ári.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um þjónustusamning ríkisins við Farice ehf. frá apríl á þessu ári en ríkissjóður og Landsvirkjun eiga 60% hlut í félaginu. Einnig er fjallað um forsögu samningsins. Meðal annars kemur fram að á árunum 2002‒11 lagði ríkissjóður Farice ehf. og forverum þess félags til alls 4,2 milljarða króna í formi hlutafjár, skammtímalána eða áhættugjalda sem breytt var í hlutafé. Jafnframt hefur hann veitt þeim rúmlega 7 milljarða króna ábyrgðir vegna lántöku þeirra. Félögin hafa engu að síður verið rekin með tapi allt frá upphafi og enn sjást ekki merki um verulega tekjuaukningu Farice ehf. frá gagnaverum eins og að hefur verið stefnt.

Vegna alvarlegra lausafjárvandamála Farice ehf. í byrjun þessa árs gerði Fjarskiptasjóður fyrir hönd ríkissjóðs fimm ára þjónustusamning við félagið gegn því að það tryggði fjarskiptasamband Íslands við umheiminn. Fram hefur komið að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi bent á þessa leið en hvorki var hægt að skuldsetja félagið frekar né veita því aukna ríkisaðstoð. Að mati Ríkisendurskoðunar ættu að vera takmarkanir á umsömdum skuldbindingum ríkisins en ekki er getið um fjárhæð greiðslna í samningnum við Farice ehf. Samkvæmt frumvörpum til fjáraukalaga árið 2012 og fjárlaga árið 2013 var áætlað að þær næmu 710 milljónum króna á tímabilinu 2012–14. Eftir það þyrfti félagið ekki á frekari ríkisstuðningi að halda. Ríkið greiddi Farice ehf. 355 milljónir króna á árinu 2012 en uppfærðar áætlanir gera nú ráð fyrir að félagið muni þurfa alls 800 milljóna króna framlag ríkissjóðs á árunum 2013‒14, þ.e. um 445 milljónir króna umfram það sem ráð var fyrir gert. Þar með er skuldbindingum ríkissjóðs gagnvart Farice ehf. þó ekki lokið en áætlað er að eftir þetta muni fjárveitingar smám saman fjara út.

ESA hefur ekki samþykkt þjónustusamning Fjarskiptasjóðs við Farice ehf. eins og kveðið er á um í fyrirvara hans. Þá hefur stofnunin ekki heldur metið aðferðina sem þar er viðhöfð við að ákveða greiðslur til félagsins og hvort sú opinbera þjónusta sem samið er um sé nægilega vel skilgreind. Hvort tveggja skapar nokkra óvissu.

Bókfærð eign ríkissjóðs í Farice var lækkuð um 80% árið 2009 í varfærnisskyni vegna mikillar óvissu og erfiðrar stöðu félagsins. Á sama tíma veitti ríkissjóður félaginu ítrekað skammtímalán svo það gæti staðið við skuldbindingar sínar og sömuleiðis ríkisábyrgðir á lengri lánum. Einnig var lögboðið áhættugjald vegna ríkisábyrgða frá árunum 2009 og 2010 ekki greitt heldur breytt í hlutafé við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins árið 2011.

Ríkisendurskoðun bendir á að ekki sé heimilt að veita ríkisábyrgð nema fyrir liggi heimild í lögum og umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Einnig eigi að greiða svokallað áhættugjald þegar slík ábyrgð sé veitt. Að mati Ríkisendurskoðunar voru þessi skilyrði ekki ávallt uppfyllt við veitingu ábyrgða á lánum Farice. Stofnunin beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að það tryggi að skilyrði laga um ríkisábyrgðir séu ávallt uppfyllt þegar þær eru veittar. Enn fremur beri ráðuneytinu að sjá til þess að greinargerð með frumvarpi til fjár- og fjáraukalaga hverju sinni geymi fullnægjandi upplýsingar um umfang og eðli þeira skuldbindinga sem áformað er að stofna til.

Loks telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að innanríkisráðuneytið tryggi að Fjarskiptasjóður geti bæði innt af hendi greiðslur samkvæmt þjónustusamningi við Farice og haft eftirlit með framkvæmd hans. Ljóst er að aukinn kostnaður mun falla á sjóðinn vegna eftirlits í samræmi við ákvæði samningsins.

Sjá nánar