Athugasemd vegna umfjöllunar um aðkomu Ríkisendurskoðunar að málefnum Eirar

Almennt

09.11.2012

Vegna opinberrar umfjöllunar um aðkomu Ríkisendurskoðunar að málefnum hjúkrunarheimilisins Eirar vill stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.Starfsemi Ríkisendurskoðunar er lögbundin. Í meginatriðum þýðir það að stofnuninni er aðeins heimilt að annast þau verkefni er lög mæla fyrir um að hún sinni. Samkvæmt lögum nr. 86/1997 um stofnunina ber henni að endurskoða reikninga ríkissjóðs, ríkisstofnana, ríkisfyrirtækja sem og sjóða, félaga og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins. Að auki ber henni að annast endurskoðun reikninga vegna samninga um rekstrarverkefni, sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila og fela í sér að þeir annist lögboðna þjónustu, er ríkissjóði ber að greiða fyrir. Rekstur hjúkrunarheimila fellur hér undir. Aðra endurskoðun en lög mæla fyrir um er henni hins vegar almennt séð óheimilt að taka að sér.

Ríkið er skuldbundið til að greiða þann þátt í starfsemi hjúkrunarheimilisins Eirar sem felst í hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða. Greiðslur eru í formi daggjalda. Í samræmi við fyrrnefnt lögbundið hlutverk sitt ber Ríkisendurskoðun að endurskoða reikninga vegna þessarar þjónustu. Endurskoðunarumboðið tekur á hinn bóginn ekki til annarra þátta í starfsemi Eirar, svo sem umsýslu fasteigna. Engu máli skiptir þótt sú starfsemi sé á sömu kennitölu og rekstur hjúkrunarheimilisins.

Gerð er krafa um að rekstur sem einkaaðilar eða sjálfseignarstofnanir sinna samkvæmt þjónustusamningi við ríkið sé aðskilinn fjárhagslega og í bókhaldi frá öðrum rekstri sem slíkir aðilar kunna að sinna. Helgast þetta m.a. af því að samkvæmt 3. gr. fjárreiðulaga nr. 88/1997 skal í A-hluta ríkisreiknings gera grein fyrir fjárreiðum þeirra sem ekki eru ríkisaðilar ef ríkissjóður kostar að öllu eða verulegu leyti starfsemi þeirra með framlögum eða ber rekstrarlega ábyrgð á starfseminni. Í bókhaldi Eirar er fullkominn aðskilnaður milli annars vegar reksturs hjúkrunarheimilis (rekstrarsjóðs) og hins vegar umsýslu fasteigna (húsrekstrarsjóðs). Í samræmi við það eru gerðir tveir sjálfstæðir ársreikningar fyrir hvorn þátt starfseminnar fyrir sig.

Enda þótt fjárhagslegur aðskilnaður sé tryggður milli rekstrarsjóðs og húsrekstrarsjóðs tekur Ríkisendurskoðun undir það sjónarmið að æskilegt væri að hjúkrunarheimilið væri sjálfstæður lögaðili. Það er hins vegar ekki á valdi stofnunarinnar að gera slíkan aðskilnað að skilyrði fyrir framlögum heldur stjórnvalda.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 86/1997 er Ríkisendurskoðun heimilt að útvista lögboðnum verkefnum sínum. Í samræmi við þessa heimild gerði stofnunin samning við endurskoðunarfyrirtækið PwC um að annast endurskoðun ársreiknings hjúkrunarheimilisins Eirar. PwC endurskoðar því reikninga hjúkrunarheimilisins í umboði Ríkisendurskoðunar. Á hinn bóginn eru reikningar húsrekstrarsjóðs ekki endurskoðaðir í umboði Ríkisendurskoðunar enda nær það ekki til þessa þáttar í starfsemi Eirar. Tilvísun til slíks umboðs í áritun endurskoðanda PwC á ársreikninga sjóðsins byggir því á misskilningi sem láðst hefur að vekja athygli endurskoðandans á.

Óæskilegt er að hjúkrunarheimili láni fé
Í ljósi þess að bróðurpartur tekna hjúkrunarheimila kemur úr ríkissjóði í formi daggjalda telur Ríkisendurskoðun óæskilegt að slíkar stofnanir láni fé, hvort sem er til skyldrar eða óskyldrar starfsemi. Varhugavert er þó að fullyrða að slíkar lánveitingar fari í bága við lög um fjárreiður ríkisins. Í samræmi við regluna um fjárhagslegan aðskilnað er í ársreikningum Eirar gerð skilmerkileg grein fyrir lánveitingum rekstrarsjóðs til húsrekstrarsjóðs. Hafa ber í huga að þrátt fyrir fjárhagslegan aðskilnað er rekstur beggja sjóðanna á hendi sama lögaðilans sem ábyrgist skuldbindingar þeirra.

Ríkisendurskoðun er aðeins umsagnaraðili um veðsetningarbeiðnir hjúkrunarheimila
Hjúkrunarheimilið Eir er sjálfseignarstofnun sem starfar á grundvelli staðfestrar skipulagsskrár samkvæmt lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Sýslumaðurinn á Sauðárkróki fer með framkvæmd þessara laga sbr. nánar 1. gr. þeirra. Samkvæmt lögunum er Ríkisendurskoðun falið tiltekið eftirlits- og upplýsingahlutverk. Ekki má rugla því saman við endurskoðunarhlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 86/1997, sem áður er vikið að. Meðal annars skal stofnunin safna saman ársreikningum staðfestra sjálfseignarstofnana og halda skrá um heildartekjur þeirra og gjöld, eignir þeirra og skuldir.

Samkvæmt 5. gr. nefndra laga nr. 19/1988 má eigi selja eða veðsetja fasteignir sem eru í eign sjóðs eða stofnunar nema að fengnu samþykki sýslumannsins á Sauðárkróki. Áður en hann tekur afstöðu til umsóknar um veðsetningu eða sölu fasteignar skal hann leita umsagnar Ríkisendurskoðunar. Samrýmist umræddar skuldbindingar markmiðum og verkefnum viðkomandi sjálfseignarstofnunar samkvæmt skipulagsskrá hennar sem og lögum nr. 86/1997 gerir Ríkisendurskoðun að jafnaði engar athugasemdir við þær í sinni umsögn. Það er hins vegar sýslumannsins á Sauðárkróki en ekki Ríkisendurskoðunar að samþykkja beiðnir um veðsetningu, sbr. áðurnefnda 5. gr.

Árið 2010 veitti Ríkisendurskoðun sýslumanni m.a. umsagnir um beiðnir Eirar um heimildir til að veðsetja eignir sjálfseignarstofnunarinnar vegna lána til fjárfestinga. Ríkisendurskoðun taldi ekki ástæðu til að gera athugsemdir við beiðnirnar enda voru umræddar fjárfestingar beinlínis í þágu starfsemi Eirar eins og henni er lýst í skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar nr. 510/2011. Þar segir í 2. gr. að markmið hennar sé að veita umönnun, hjúkrun og aðra skylda þjónustu, m.a. með því að reisa og reka hjúkurnarheimili.